Bandaríska stórleikkonan Jodie Foster er um þessar mundir stödd á Norðurlandi við tökur á bandarísku sjónvarpsþáttunum True Detective. Foster hefur til að mynda heimsótt Smámunasafnið í Eyjafirði og skellt sér á skíðasvæðið í Hlíðarfjalli.
Foster hefur undanfarna daga verið við tökur á Dalvík. Fréttablaðið greindi frá því í gær að Foster hefði skellt sér á skíði í Hlíðarfjalli. Vegfarendur sem Fréttablaðið ræddi við sögðu hana virðast hafa verið alsæla.
Foster heimsótti einnig Smámunasafnið í Eyjafirði og var á því að safnið væri einstakt listasafn samkvæmt Sigríði Rósu Sigurðardóttur, safnstýru. Sigríður segir í samtali við Fréttablaðið að hún hafi alltaf verið mikill aðdáandi Foster og að það hafi verið mikið heillaspor að fá að hitta hana.
„Forsagan að þessu er að ég fæ símtal frá bílstjóranum hennar sem lætur mig vita að þeim langi að skoða safnið án þess þó að segja hver væri þarna á ferðinni. Safnið er ekki opið þessa dagana en það var eitthvað sem sagði mér að leyfa þeim að koma þótt að ég vissi ekki hver væri þarna á för,“ segir Sigríður í Fréttablaðinu.
„Þær voru ofboðslega áhugasamar um safnið og fannst þetta alveg stórkostlegt. Þeim fannst synd að heyra að það væri óvissa um framtíðina og að það væri verið að selja húsnæðið því þær voru með ýmsar hugmyndir hvernig hægt væri að nýta alla þessa hluti. Þetta er náttúrulega einstakt safn á heimsvísu, það var maður sem safnaði fimmtíu þúsund munum á sjötíu ára tímabili,“ segir Sigríður.
UMMÆLI