Slippurinn Akureyri hefur sett á laggirnar vöruþróunarsetur, þar sem sérhæfðir starfsmenn munu vinna að hönnun og þróun margvíslegra tæknilausna í matvælavinnslu.
Undirbúningur að stofnun vöruþróunarsetursins hefur staðið yfir í um eitt ár.
Páll Kristjánsson, framkvæmdastjóri Slippsins segir nýsköpunar- og þróunarstarf lykilinn að framþróun félagsins á komandi árum. Verkefni vöruþróunarsetursins verði fjölbreytt, sem komi til með að skila afurðum á markað og opna nýjar dyr að frekari verkefnum
Mikilvægi þekkingar og samvinnu
Starfsemi Slippsins hefur tekið verulegum breytingum á undanförnum árum og mikil áhersla er lögð á nýsköpun.
„Starfsfólk Slippsins hefur sýnt og sannað að það er í fremstu röð á sínu sviði í þjónustu við alþjóðlegan sjávarútveg, enda hafa tekjur félagins vegna erlendra verkefna vaxið mjög. Auðvitað munum við áfram leggja ríka áherslu á heildarlausnir í hönnun, þróun og endurnýjun á skipum og búnaði þeirra, Slippurinn er fremsta þjónustustöð skipa á Íslandi og mun vera það áfram. Hérna starfa um 150 manns en einnig erum við í samstarfi við fjölmörg fyrirtæki til þess að geta boðið upp á heildarlausnir í matvælavinnslu. Hraðinn í vöruþróun er mikill og við slíkar aðstæður sannast mikilvægi þekkingar og samvinnu. Vöruþróunarsetrinu er einmitt ætlað að vera öflugur hlekkur í þeirri mikilvægu keðju,“ segir Páll Kristjánsson.
Góð uppskera
Allur vinnslubúnaður Slippsins er markaðssettur undir vörumerkinu „DNG by Slippurinn“ og svo er einnig um framleiðsluna og þjónustuna í Grindavík.
„Opnun vöruþróunarsetursins er risastórt framfaraskref og ég bind miklar vonir við starfsemina, enda hefur öflugur hópur starfsfólks Slippsins lagt mikinn metnað í allan undirbúning. Þetta er lausnamiðaður hópur með fjölbreyttan bakgrunn og ég er ekki í vafa um að uppskeran verður ríkuleg, enda jarðvegurinn frjór,“ segir Páll Kristjánsson, framkvæmdastjóri Slippsins.
UMMÆLI