NTC

Listasafnið á Akureyri fagnar 30 ára afmæli sínu með 23 sýningum

Listasafnið á Akureyri fagnar 30 ára afmæli sínu með 23 sýningum

Á kynningarfundi sem haldinn var í Listasafninu á Akureyri í gær var dagskrá ársins 2023, ný árbók og komandi starfsár kynnt. Listasafnið fagnar í ár 30 ára afmæli sínu með alls 23 sýningum. Árbók safnsins er nú öllum aðgengileg og gjaldfrjáls í anddyri safnsins auk valdra staða á Akureyri og víðar. Einnig má nálgast hana rafrænt HÉR.

Sýningaárið 2023 hefst með hvelli næstkomandi laugardag

Sýningaárið 2023 hefst formlega næstkomandi laugardag þegar opnuð verður sýning á verki Ragnars Kjartanssonar, The Visitors. Jafnframt verður opnuð safnsýningin Ný og splunkuný, en þar má sjá nýleg verk úr safneign Listasafnsins. The Guardian valdi The Visitors besta listaverk 21. aldarinnar eftir að það var fyrst sett upp í Migrossafninu í Zürich 2012. Verkið hefur farið sigurför um helstu listasöfn heims og hefur einungis einu sinni áður verið sýnt á Íslandi, í Kling og Bang 2013.Á meðal annarra listamanna á árinu eru Ásmundur Ásmundsson, Brynhildur Kristinsdóttir, Dröfn Friðfinnsdóttir, Guðjón Ketilsson, Melanie Ubaldo, Inga Lísa Middleton, Sigurður Guðjónsson, Sara Björg Bjarnadóttir og Sigurður Guðjónsson. Einnig verða fastir liðir á dagskrá eins og A! GjörningahátíðSköpun bernskunnar og nemendasýningar VMA og Myndlistaskólans.

Samstarf við Hjúkrunarheimilið Hlíð

„Samstarf við ólíka hópa er mikilvægur þáttur í starfsemi Listasafnsins á Akureyri,“ segir Hlynur Hallsson, safnstjóri. „Við erum sífellt að leita leiða til að útvíkka starfsemina og gera safneignina aðgengilega öllum aldurs- og þjóðfélagshópum. Það er mjög ánægjulegt að segja frá því að í ár er bryddað upp á þeirri nýbreytni að vinna heildstæðar sýningar frá grunni og setja upp utan safnsins sjálfs. Listasafnið og Hjúkrunarheimilið Hlíð vinna saman að því að fræða og gleðja íbúa, starfsfólk og gesti Hlíðar með tveimur sýningum undir yfirskriftinni Hér og þar I-II. Þessum sýningum er ætlað að viðhalda menningarlegri tengingu íbúa við myndlistarsögu bæjarins og vekja upp minningar og samræðugrundvöll um myndlist og samfélagið. Munum við í kjölfarið bjóða gestum Hlíðar upp á leiðsögn og fræðslu um sýningarnar tvær,“ segir Hlynur.

Safnið að innan á afmælisári 

Haldið verður upp á 30 ára afmæli Listasafnsins með sérstökum afmælisvikum í ágúst og þemanu Safnið að innan. Þá verður boðið upp á leiðsögn þar sem fólk getur fræðst um það sem gerist á milli sýninga og í aðdraganda uppsetningar á nýjum sýningum. „Á tímabilinu sem um ræðir er verið að setja upp sjö nýjar sýningar í níu sýningarýmum og þar af leiðandi í mörg horn að líta,“ segir Hlynur. „Gestum býðst að skyggnast á bak við tjöldin og geta því upplifað þennan annasama og spennandi tíma í safninu og fá þannig innsýn í þá starfsemi safnsins sem oftast er ekki aðgengileg gestum. Þeim gefst jafnframt kostur á að hitta listamenn og starfsfólk.“ 

Þriðjudagsfyrirlestrar og fræðslustarf á sínum stað

Þriðjudagsfyrirlestrarnir hófu að nýju göngu sína í síðustu viku og verða áfram stór þáttur í fræðslustarfi Listasafnsins, en þeir eru settir upp í samvinnu við Verkmenntaskólann á Akureyri, Myndlistarfélagið, Menntaskólann á Akureyri og Gilfélagið. Fyrirlestrarnir eru sem fyrr haldnir á hverjum þriðjudegi kl. 17-17.40 yfir vetrartímann. Sem fyrr verður fræðslustarf Listasafnsins kraftmikið og í gangi allt árið þar sem verður m.a. boðið upp á almenna leiðsögn, fjölskylduleiðsögn, smiðjur og vinnustofur. 

Listasafnið á Akureyri er í eigu Akureyrarbæjar og starfar í þágu almennings. Rekstrarkostnaður safnsins greiðist úr bæjarsjóði í samræmi við fjárhags- og starfsáætlun ár hvert. Safnið er ekki rekið í hagnaðarskyni. Bæjarráð myndar stjórn Listasafnsins á Akureyri. Listasafnið á Akureyri er viðurkennt safn og fær stuðning frá Safnaráði. Aðrir bakhjarlar eru Norðurorka, Geimstofan, N4, Stefna og Dagskráin.

VG

UMMÆLI

Sambíó