Framsókn

Tvær opnanir í Listasafninu á Akureyri: Ragnar Kjartansson – The Visitors og safnsýningin Ný og splunkuný

Tvær opnanir í Listasafninu á Akureyri: Ragnar Kjartansson – The Visitors og safnsýningin Ný og splunkuný

Laugardaginn 4. febrúar kl. 15 verður opnuð sýning á verki Ragnars Kjartanssonar, Gestirnir / The Visitors í Listasafninu á Akureyri. Jafnframt verður opnuð safnsýningin Ný og splunkuný, en þar má sjá nýleg verk úr safneign Listasafnsins.

Gestirnir:

The Visitors – óður vináttu við tónfall rómantískrar örvæntingar. Hópur vina og tónlistarmanna safnast saman í kjörlendi bóhemíunnar, í ljósaskiptunum, á hinum stórbrotna og hnignandi Rokeby Farm í Upstate New York. Staðurinn verður vettvangur þess sem Ragnar kallar femínískt, níhilískt gospel lag: marglaga portrett af vinum listamannsins, könnun á möguleikum tónlistar í kvikmyndaforminu og dregur titil sinn af síðustu plötu ABBA, The Visitors, sem mörkuð var aðskilnaði og ósigri. Tónlistarmennirnir í verkinu eru Davíð Þór Jónsson, Gyða Valtýsdóttir, Kristín Anna Valtýsdóttir, Ólafur Jónsson, Þorvaldur Gröndal, Shahzad Ismaili, Ragnar Kjartansson og Kjartan Sveinsson. Lagið er eftir Ragnar og Davíð Þór Jónsson og er samið við textabrot úr myndbandsverkum og gjörningum Ásdísar Sifjar Gunnarsdóttur.

Verkið var fyrst sett upp í Migrossafninu í Zürich árið 2012. The Guardian valdi The Visitors besta listaverk 21. aldarinnar. Verkið hefur farið sigurför um helstu listasöfn heims og hefur einungis einu sinni áður verið sýnt á Íslandi, í Kling & Bang 2013.

Ragnar Kjartansson (f. 1976) nam við Listaháskóla Íslands, Konunglegu Akademíuna í Stokkhólmi og Hússtjórnarskólann í Reykjavík. Einkasýningar hans hafa verið haldnar í mörgum af virtustu listasöfnum heims og hann var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2009.

Ragnar Kjartansson, The Visitors, 2012. Myndband á níu skjám, 64 mínútur.  Með leyfi listamannsins, Luhring Augustine, New York og i8 gallerí, Reykjavík. Ljósmynd: Elisabet Davids. Thyssen-Bornemisza Art Contemporary Collection, lánaði verkið.

Sýningarstjóri: Hlynur Hallsson.

Ný og splunkuný

Því ber að fagna að nú getur Listasafnið á Akureyri aftur hafist handa við kaup á verkum í safneignina. Sýningin Ný og splunkuný gefur yfirlit yfir verk sem safninu hafa verið gefin á síðustu árum, en hafa ekki verið sýnd ásamt splunkunýjum verkum sem safnið hefur keypt.

Eitt af meginhlutverkum listasafna er að safna myndlist og miðla safneigninni, enda mikilvægt að safna með reglubundnum hætti listaverkum sem endurspegla listasöguna.

Í söfnunarstefnu Listasafnsins segir meðal annars: „Söfnunarsvið Listasafnsins á Akureyri er allt landið en jafnframt leggur safnið sérstaka áherslu á söfnun verka sem tengjast Norðurlandi.“ Móttaka gjafa takmarkast af því markmiði að Listasafnið byggi upp heillega og markvissa safneign.

Listamenn: Agnieszka Sosnowska , Björg Eiríksdóttir , Gísli Guðmann, Guðmundur Ármann Sigurjónsson, Hafdís Helgadóttir, Hafliði Hallgrímsson, Jan Voss, Jónborg Sigurðardóttir – Jonna, Karl Guðmundsson, Kristín K. Þórðardóttir Thoroddsen, Lilý Erla Adamsdóttir, Níels Hafstein og Sigtryggur Bjarni Baldvinsson.

Sýningarstjóri: Hlynur Hallsson.

VG

UMMÆLI

Sambíó