Þriðjudaginn 31. janúar kl. 17-17.40 halda listahjónin Elfar Logi Hannesson og Marsibil G. Kristjánsdóttir Þriðjudagsfyrirlestur undir yfirskriftinni Samstarf samlímdra hjóna. Þar munu þau fjalla um samstarf sitt í leiklistinni. Aðgangur er ókeypis.
Elfar Logi og Marsibil reka eina atvinnuleikhús Vestfjarða, Kómedíuleikhúsið, og elstu leiklistarhátíð á Íslandi, Act Alone, sem haldin er á Suðureyri. Jafnframt standa þau fyrir Sumarleikhúsi Kómedíuleikhússins hvert sumar í Haukadal í Dýrafirði. Elfar hefur samið leikrit fyrir leikhúsið auk þess að leika á meðan Marsibil hefur hannað leikmyndir og leikstýrt.
Elfar Logi nam leiklist í Kaupmannahöfn, en Marsibil er sjálfmenntuð og hefur sótt ýmis námskeið í gegnum tíðina m.a. við Myndlistaskólann á Akureyri. Þau dvelja í listamannaíbúð Gilfélagsins í janúar og opnaði Marsibil sýninguna Kufungar og skeljaskvísur í síðustu viku.
Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Gilfélagsins, Menntaskólans á Akureyri, og Myndlistarfélagsins á Akureyri. Aðrir fyrirlesarar vetrarins eru Agnes Ársælsdóttir, myndlistarkona, Stefán Þór Sæmundsson, rithöfundur og íslenskukennari, Marta Nordal, leikhússtjóri, Andrea Weber, myndlistarkona, Einar Sigþórsson, arkitekt, og Hyo Jung Bea, myndlistarkona.
UMMÆLI