NTC

Spiceman og GDB gefa út fyrsta lagið af 5 laga EP plötu

Spiceman og GDB gefa út fyrsta lagið af 5 laga EP plötu

Föstudaginn 20. janúar munu Grenvíkingurinn Spiceman og Akureyringurinn GDB gefa út fyrsta lagið „Vild ég vissi“ af 5 laga EP plötunni „Vild ég vissi“ sem þeir hafa verið að vinna að síðustu tvö árin.

Tónlist þeirra hingað til hefur einkennst af popp- og house tónlist en þetta fyrsta lag plötunnar er meira rokk en þeir hafa gefið út áður. Þeir koma til með að gefa út næstu lög plötunnar á tveggja vikna fresti en lagið má nálgast á öllum helstu streymisveitum á föstudaginn.

Björn Rúnar Þórðarson er 22 ára Grenvíkingur sem gengur undir listamannanafninu Spiceman. GDB er Gunnar Darri Bergvinsson, 22 ára Akureyringur. Þeir byrjuðu að gera tónlist saman í Menntaskólanum á Akureyri árið 2018 og hafa haldið því við síðan.

„Við höfum mikið verið að gera raf- og popp tónlist þó við höfum verið undir miklum áhrifum af hip hop og rapp senunni síðustu ár. Við erum báðir útskrifaðir úr MA en fórum svo báðir í hljóðtækni nám við Tækniskólann í Reykjavík og vorum að klára það bara núna fyrir jól þar sem við byrjuðum í janúar 2022. Planið er að nýta okkur þá þekkingu í okkar tónlist og þá mikið tæknilegu hlið hljóðs sem var lögð mikil áhersla á í náminu, sem hefur gert okkur kleift að mixa og mastera tónlistina okkar sjálfir,“ segir Björn Rúnar í samtali við Kaffið.is.

Árið 2022 gáfu þeir út tvö lög saman. Fyrra lagið heitir Sama Hvernig Fer og seinna lagið var remix af laginu Hlið við Hlið eftir Friðrik Dór.

„Þessi lög sem eru á þessari nýju EP plötu okkar eru flest í einhvers konar house/popp stíl en fyrsta lagið sem kemur út á miðnætti er meira í rokk áttina sem er eitthvað sem við höfum aldrei gert áður. Næstu lög plötunnar koma svo út á tveggja vikna fresti.“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó