Akureyringurinn Hafdís Sigurðardóttir, hjólreiðakona ársins og Íslandsmeistari, hjólaði um helgina 1.012 kílómetra en hún byrjaði að hjóla klukkan 15 á föstudag og hjólaði í 46 klukkutíma. Hafdís var til viðtals í íþróttafréttum á RÚV í gær þar sem hún sagði að umhverfi afreksíþróttafólks á Íslandi væri erfitt.
Sjá einnig: Hafdís hjólaði 1.012 kílómetra
Hún þarf sjálf að standa allan straum af kostnaði í kring um kostnað við keppnir og búnað. Hún safnaði því áheitum samhliða hjólaafrekinu um helgina.
„Allaveganna í einstaklingsíþrótt, þar sé ég í rauninni um allan kostnað tengdan minni íþrótt sjálf. Svo eru félögin líka lítil félög, Hjólreiðasambandið er lítið félag sem fær litla fjárfestingu þannig að maður er bara já að sjá um þetta sjálfur,“ segir Hafdís.
Fjölskylda Hafdísar og vinir hafa sett upp styrktarreikning vegna átaksins og keppnisferðalaga hennar, sem öllum er frjálst að leggja inn á. Reikningsnúmer: 0566-26-060320, kennitala: 240589-3899.
„Ég fékk þessa hugdettu út frá Bakgarðshlaupinu, og fannst þetta ógeðslega spennandi. Mig langaði að prufa þetta og er búin að ganga með þetta í kollinum síðan í sumar. Ég ákvað bara að láta slag standa og testa þetta,“ sagði Hafdís í íþróttafréttum RÚV en viðtalið við hana má sjá í heild sinni á vef RÚV með því að smella hér.
UMMÆLI