Níu nýsköpunarteymi á Norðurlandi kláruðu nýverið viðskiptahraðalinn Vaxtarrými sem Norðanátt, hreyfiafl nýsköpunar á Norðurlandi, stóð að.
Vaxtarrými er átta vikna viðskiptahraðall með fókus á sjálfbærni, rammað inn af þemanu “mat, orka, vatn”, þar sem þátttakendur fá tækifæri til að efla sig og sín fyrirtæki og vaxa með vindinn í bakið.
Þetta er í annað sinn sem Norðanátt stendur fyrir hraðlinum. Vaxtarrými hófst 3. október en þátttakendur hafa síðastliðnar átta vikur fengið fræðslu, setið vinnustofur á Dalvík, Skagaströnd, Húsavík og Akureyri og tengst reynslumiklum aðilum víða úr atvinnulífinu á svokölluðum mentorafundum.
Lokaviðburður Vaxtarrýmis var haldinn með pompi og prakt fimmtudaginn 24. nóvember síðastliðinn í Listasafni Akureyrar þar sem nýsköpunarteymin stigu á stokk og kynntu verkefni sín fyrir fullum sal boðsgesta en um 80 manns sóttu viðburðinn og hlýddu á þeirra kraftmiklu kynningar.
Kolfinna María Níelsdóttir, verkefnastjóri Norðanáttar opnaði viðburðinn og stýrði dagskrá og í kjölfar hennar fóru Lára Halldóra Eiríksdóttir, stjórnarformaður SSNE, Katrín Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV og Sesselja Barðdal Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Eims með innblásturserindi.
„Það er mikilvægt fyrir okkur á Norðurlandi vestra að vera virkur þátttakandi í hreyfiafli eins og Norðanáttin er. Gróska nýsköpunar hjálpar okkur að virkja krafta innan svæðis og hafa áhrif utan þess. Nýsköpun skapar okkur sóknartækifæri og framsækið samfélag“, segir Katrín M. Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri SSNV.
Teymi Vaxtarrýmis 2022:
Íris Björk Marteinsdóttir & Ívar Örn Marteinsson: PellisCol ætlar að þróa náttúrulegar Spa húðvörur með íslensku kollageni og færa þannig kollagenið nær húðinni með áherslu á afslöppun og endurnýjun.
Kristín S. Gunnarsdóttir: Snoðbreiða er umhverfisvæn lausn unnin úr ull til notkunar við ræktun á matjurtum, blómum og öðrum gróðri.
Jean-Pierre Lanckman: Earth Tracker answers the need for accurate climate impact study by developing high resolution models, online tools and localclimate adaptation strategies.
SKARFAKÁL ARCTIC CIRCLE
Mayflor Perez Cajes: Skarfakál Arcrtic Circle mun efla og fjölga atvinnutækifærum í Grímsey, nýta auðlindina, stuðla að nýsköpun og auka framleiðslu af nýju hráefni í matvælaframleiðslu á Íslandi.
Hildur Leonardsdóttir & Brynja Hlíf Þorsteinsdóttir: Griðungr framleiðir hágæða húðvörur án allra skaðlegra efna úr nautatólg og íslenskum jurtum.
Vilhjálmur Jónasson: Landhreinsun og nýting.
María Eymundsdóttir & Pálmi Jónsson (Hulduland): Hágæðavara sem ræktuð er á sjálfbæran hátt, hefur jákvæð áhrif á andlega líðan og er orkugefandi.
María Dís Ólafsdóttir: Gríðarlegt magn af roði fellur til sem hliðarafurð frá sjávarútveginum, á sama tíma fyllast landfyllingar af endingarlitlum textíl. Með því að framleiða leður úr roði í stærri einingum má leysa þessi vandamál.
Kolbeinn Óttarsson Proppé: Grænafl ehf. berst gegn loftslagsvánni með því að vinna að rafvæðingu strandveiðibáta og stuðla að orkuskiptum.
Norðanátt byggir á hringrás nýsköpunar þar sem frumkvöðlar fá tækifæri til að þróa hugmyndir sínar, vaxa og ná lengra. Hringrásin samanstendur af hugmyndasamkeppninni Norðansprotanum, viðskiptahraðlinum Vaxtarrými og fjárfestahátíð sem haldin er á Siglufirði á vorin. Að Norðanátt standa Eimur, landshlutasamtökin SSNE og SSNV og stuðningsfyrirtækið RATA. Bakhjarl Norðanáttar er Umhverfis-, orku, og loftslagsráðuneytið.
UMMÆLI