NordForsk kynnti nýlega sex nýja rannsóknastyrki undir hatti „Societal Security beyond COVID-19“. Eitt þessara verkefna er INSPECT Societal Security after COVID 19 – Inquiring Nordic Strategies, Practices, Educational Consequences and Trajectories sem hlaut styrk upp á 127 milljónir íslenskra króna (9 milljónir norskra króna) og er leitt af Ane Qvortrup prófessor við SDU í Danmörku (Syddansk Universitet). Hermína Gunnþórsdóttir prófessor við Kennaradeild HA tekur þátt í rannsókninni ásamt rannsakendum frá Finnlandi, Svíþjóð, Noregi og Danmörku. Hermína leiðir íslenska hluta rannsóknarinnar.
Frá þessu er greint á vef Háskólans á Akureyri en þar segir að rannsóknin miði að því að rannsaka langtímaafleiðingar af COVID-19 á skóla og nám nemenda.
„Nú þegar er ljóst að takmarkanir og óöryggi í kjölfar COVID-19 hafa haft neikvæð áhrif á nám og líðan margra nemenda og tveggja ára heimsfaraldur hefur raskað sumum grundvallaratriðum í tilveru þeirra, t.d. heimssýn, skilningi á sjálfum sér og hvata til menntunar sem og framtíðaáætlunum. Miðað við vitneskju okkar um skammtímaafleiðingar COVID-19 er ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu norrænna skóla sem hafa lengið verið í fremstu röð og lagt rækt við góð skilyrði til náms, líðan og þroska nemanda. Í INSPECT verkefninu verður því leitast við að kryfja norrænar aðferðir og starfshætti í skólum í faraldrinum og hvaða langtímaafleiðingar COVID-19 kann að hafa fyrir einstök svæði, skóla og mismunandi hópa nemenda. Niðurstöðurnar munu nýtast bæði yfirvöldum menntamála og einstaka skólum til að þróa áfram norrænt skólastarf með gæði og jöfnuð að leiðarljósi,“ segir á vef HA.
UMMÆLI