Framsókn

Hulda Sædís Bryngeirsdóttir ver doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri

Hulda Sædís Bryngeirsdóttir ver doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri

Föstudaginn 4. nóvember 2022 mun Hulda Sædís Bryngeirsdóttir verja doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri. Þetta er önnur doktorsvörnin sem fram fer við Háskólann á Akureyri.

Doktorsritgerðin ber heitið Leiðir kvenna til að eflast og vaxa eftir að hafa verið beittar ofbeldi í nánu sambandi: Með áherslu á hvetjandi og letjandi áhrifaþætti.

Sjá einnig: Karen Birna Þorvaldsdóttir varði doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum

Vörnin fer fram á ensku í Hátíðarsal Háskólans á Akureyri kl. 9:30 og er öllum opin.

Ritgerðin var unnin undir leiðsögn Dr. Sigríðar Halldórsdóttur, prófessors við Háskólann á Akureyri. Auk hennar voru í doktorsnefnd Dr. Denise Saint Arnault, prófessor við University of Michigan í Bandaríkjunum, og Dr. Rhonda M. Johnson, prófessor við University of Alaska Anchorage í Bandaríkjunum.

Andmælendur eru Dr. Terese Bondas, prófessor í heilbrigðisvísindum við heilbrigðisvísindasvið Háskólans í Stavanger í Noregi, og Dr. Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðilegri siðfræði við Hugvísindasvið Háskóla Íslands.

Dr. Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir, forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms, og Dr. Kristján Þór Magnússon, settur forseti Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviðs, munu stýra athöfninni.

Skráning hér

Streymishlekkur hér

Um doktorsefnið

Hulda Sædís Bryngeirsdóttir er fædd árið 1971 á Akureyri. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1991, BS-gráðu í hjúkrunarfræði frá HA árið 1996, diplómagráðu í Stjórnun og opinberri stjórnsýslu frá HA árið 2006, Kennsluréttindanámi frá HA árið 2009 og MS-gráðu í heilbrigðisvísindum árið 2016. Hulda hlaut heiðursverðlaun Hollvina Háskólans á Akureyri fyrir námsárangur og störf í þágu skólans árið 2016.

Hulda hefur sinnt ýmsum störfum í heilbrigðis- og menntakerfinu í gegnum árin. Þar af var hún stjórnandi í samtals 14 ár innan málaflokks fatlaðs fólks, félagsþjónustu og öldrunar. Eftir að Hulda lauk meistaranámi sínu árið 2016 starfaði hún sem verkefnastjóri og ráðgjafi hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands, þar sem hún vann meðal annars með konum sem orðið höfðu fyrir ofbeldi í nánu sambandi. Samhliða starfi sínu hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands og síðar doktorsnámi sínu vann Hulda sem almennur hjúkrunarfræðingur hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands og sinnti stundakennslu við Háskólann á Akureyri. Vorið 2021 hóf Hulda störf hjá Samtökum um Kvennaathvarf, sem verkefnastýra nýs áfangaheimilis í Reykjavík fyrir konur og börn sem ekki geta búið heima vegna ofbeldis. Þar nýtti hún m.a. rannsóknarniðurstöður sínar og fyrri starfsreynslu af starfsendurhæfingu við að skipuleggja innviði starfsemi Áfangaheimilisins, auk þess sem hún sinnti ráðgjafastörfum í húsinu. Því starfi sinnti hún þar til hún hóf störf sem kennari við Háskólann á Akureyri nú í haust.

Hulda hóf doktorsnám sitt við Háskólann á Akureyri haustið 2019. Doktorsverkefnið hlaut rausnarlega styrki frá Jafnréttissjóði og Vísindasjóði Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Jafnréttisstofa kynnti doktorsrannsóknina á vefsíðu sinni.

Ágrip

Meginmarkmið doktorsverkefnisins var að rannsaka og greina meginþætti vegferðar íslenskra kvenna að eflingu og vexti eftir ofbeldi í nánu sambandi, með áherslu á hvetjandi og letjandi þætti, og að þróa kenningu um þá vegferð. Rannsókn I og II voru fyrirbærafræðilegar rannsóknir, þar sem tuttugu og tvær konur sem upplifað höfðu ofbeldi í nánu sambandi tóku þátt. Í Rannsókn III var kenningarsamþætting notuð við kenningarsmíðina.

Greindir voru átta meginþættir í vegferð kvenna að eflingu og vexti eftir að hafa upplifað ofbeldi í nánu sambandi og urðu þeir uppistöður kenningarinnar um vegferð þeirra. Greindir voru ellefu hvetjandi og fjórtán letjandi þættir, sem sumir höfðu áhrif á upplifun þátttakenda af því að eflast og vaxa. Þó kenningin sé sett fram sem einstefnuferli, er efling og vöxtur flæðandi og síbreytilegt ferli, og gera ætti ráð fyrir bakslögum. Samkvæmt kenningunni er kona sem upplifað hefur eflingu og vöxt meðvituð um möguleikann á slíku bakslagi, kann að takast á við þær aðstæður og veit að hún mun ná vellíðan á ný og njóta eflingar sinnar og vaxtar. Hún er einnig meðvituð um að viðhalda eflingu sinni og vexti.

Heildarniðurstöður doktorsverkefnisins gefa til kynna að efling og vöxtur séu raunverulegur möguleiki fyrir konur eftir ofbeldi í nánu sambandi, sem er líklegur til að auka velferð þeirra og lífsgæði, sem og barna þeirra, ástvina og samfélagsins í heild sinni, og draga þannig úr niðurbrjótandi áhrifum ofbeldisins. Því væri æskilegt að leggja áherslu á eflingu og vöxt kvenna í þessum sporum. Þessar rannsóknarniðurstöður eru einstakt innlegg til  rannsókna á þessu fræðasviði, þar sem vöntun virðist vera á rannsóknum á viðfangsefninu. Rannsaka þarf frekar meginþætti vegferðarinnar að eflingu og vexti eftir ofbeldi í nánu sambandi, ásamt hvetjandi og letjandi þáttum hennar.

Sambíó

UMMÆLI