Framsókn

Dýrið hlaut kvik­­mynda­verð­­laun Norður­landa­ráðsMynd: MAGNUS FRÖDERBERG, NORDEN.ORG

Dýrið hlaut kvik­­mynda­verð­­laun Norður­landa­ráðs

Íslenska kvikmyndin Dýrið í leikstjórn Valdimars Jóhannssonar hlaut Kvik­mynda­verð­laun Norður­landa­ráðs 2022 sem afhent voru í gær. Verðlaunin eru talin ein eftirsóttustu kvikmyndaverðlaun í Evrópu. 

Markmiðið með verðlaunum Norðurlandaráðs er að vekja áhuga á norrænum menningarsamskiptum og samstarfi um umhverfismál, svo og að veita verkefnum viðurkenningu sem skarað hafa fram úr á sviði lista og umhverfismála. Verðlaunin eiga jafnframt að vekja athygli á norrænu samstarfi og auka sýnileika þess.

Valdimar skrifaði handrit myndarinnar ásamt Sjón en framleiðendur eru Hrönn Kristinsdóttir og Sara Nassim. Valdimar, sem er fæddur og uppalinn á Svalbarðseyri, hefur starfað í íslenskum kvikmyndaiðnaði í um 20 ár. Hann hefur gert stuttmyndirnar Dögun og Harmsögu ásamt því að hafa starfað sem ljósamaður, gripill og tökumaður í fjölmörgum verkefnum. Kvikmyndin Dýrið er fyrsta mynd Valdimars í fullri lengd.

Verðlaununum fylgir verðlaunafé sem nemur tæpum sex milljónum íslenskra króna, og skipta handritshöfundur, leikstjóri og framleiðandi upphæðinni á milli sín.

Lesa má umsögn dómnefndar um myndina hér.

VG

UMMÆLI