NTC

Kvikkí opnar á Akureyri um helgina: „Skylda að prófa þessar samlokur”

Kvikkí opnar á Akureyri um helgina: „Skylda að prófa þessar samlokur”

Nýr matsölustaður bætist um helgina í fjölbreytta flóru veitingahúsa á Akureyri þegar Kvikkí við Tryggvabraut opnar. Einn eiganda segir nýju samlokurnar á Kvikkí algjörlega einstakar.

Nýir eigendur tóku við rekstri Salatsjoppunnar við Tryggvabraut í haust. Frá þeim tíma hafa staðið yfir breytingar á staðnum, nýtt nafn, uppfærðir matseðlar og þróun á nýjum réttum.

Salötin áfram á sínum stað

Á laugardaginn verður afrakstur þeirra vinnu svo kynntur þegar Kvikkí opnar formlega. Erlingur Örn Óðinsson, einn eiganda er spenntur fyrir komandi tímum.

„Við höfum aðeins verið að breyta og bæta og nú getum við loksins opnað nýja staðinn okkar. Salötin góðu sem Salatsjoppan hefur boðið Akureyringum upp á síðustu fimm ár eru að sjálfsögðu áfram hjá okkur en við bætum við þeim möguleika að fá sér hlýjar skálar. Þannig getur fólk fengið sér heitan kjúkling og núðlur með salatinu ef það kýs það,” segir Erlingur.

Heimabakað brauð eftir uppskrift frá pabba

Erlingur segir stærstu breytinguna hins vegar vera Kvikkí rist, nýjar ristaðar samlokur. „Pabbi er bakari og hefur legið á uppskrift af ítölsku Focaccia brauði í mörg ár. Mér hefur lengi langað að opna stað þar sem boðið er upp á samlokur úr þessu brauði og nú er loksins komið að því. Við bökum brauðið frá grunni hérna hjá okkur og bjóðum svo upp á nokkrar útgáfur af ristinni. Þetta er hrikalega gott þó ég segi sjálfur frá, það er í raun skylda að prófa þessar samlokur.”

Kvikkí opnar laugardaginn 22. október klukkan 11:00

Sambíó

UMMÆLI