NTC

Ísland á EM í þriðja sinn

Ísland á EM í þriðja sinn

Í gærkvöldi lauk íslenska kvennalandsliðið keppni í undankeppni fyrir EM í Hollandi 2017 þegar liðið tapaði fyrir Skotum á Laugardalsvelli 2-1 að viðstöddum tæplega 6500 áhorfendum.

Þrátt fyrir tapið enda stelpurnar í efsta sæti riðilsins þó þær hafi jafnmörg stig og Skotar þar sem íslenska liðið hefur mun betra markahlutfall.

sandra-maria-jessen

Sandra María er fulltrúi Þór/KA í landsliðinu

Þrír Akureyringar hafa tekið þátt í að koma Íslandi á EM 2017 en Sandra María Jessen, sem leikur með Þór/KA, spilaði þrjá leiki í undankeppninni og skoraði eitt mark.

Rakel Hönnudóttir, sem leikur nú með Breiðablik en ólst upp hjá Þór/KA, spilaði sömuleiðis þrjá leiki.

Þriðja Akureyrarmærin er Arna Sif Ásgrímsdóttir, sem nú leikur með Val, en hún var í hópnum í nokkrum leikjum þó hún hafi ekki komið inná.

Þriðja skiptið í röð í lokakeppni EM

Lokakeppni EM fer fram í Hollandi næsta sumar en þetta verður í þriðja sinn í sögunni sem íslenska kvennalandsliðið tekur þátt í lokakeppni EM.

Síðasta lokakeppni fór fram í Svíþjóð árið 2013 þar sem okkar stelpur féllu úr leik í 8-liða úrslitum gegn heimakonum. Fjórum árum áður fór liðið í fyrsta skipti í lokakeppni EM sem þá var haldin í Finnlandi en þá komust þær ekki áfram úr riðlinum.

Dregið verður í riðla þann 8.nóvember næstkomandi.

Keppnin fer fram dagana 16.júlí-6.ágúst næstkomandi og geta íslenskir knattspyrnuáhugamenn því farið að skipuleggja sumarfrí í Hollandi næsta sumar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó