NTC

Sunna og Ásdís yfirgefa KA/Þór og halda útMynd: Þórir Tryggva

Sunna og Ásdís yfirgefa KA/Þór og halda út

Handboltakonurnar Sunna Guðrún Pétursdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir halda báðar á ný mið á komandi handboltavetri. Þetta kemur fram á vef KA en báðar eru þær uppaldar hjá KA/Þór og hafa verið í lykilhlutverki í velgengni liðsins undanfarin ár.

Sunna Guðrún gengur til liðs við Svissneska liðið GC Amicitia Zürich. Sunna þekkir vel til í Sviss en tímabilið 2019-2020 lék hún með liði Zug þar í landi. Sunna er 24 ára gömul og spilar í markinu og hefur þrátt fyrir ungan aldur leikið 160 leiki fyrir KA/Þór í deild og bikar. Það verður sannarlega spennandi að fylgjast með framgöngu hennar í Sviss.

Sunna steig upp í liði KA/Þór á síðustu leiktíð í fjarveru Mateu Lonac og sýndi og sannaði að hún er ákaflega öflugur markvörður. Hún hefur verið viðloðandi B-landslið Íslands undanfarin ár og ekki spurning að hún mun halda áfram að þróa sinn leik á nýjum slóðum í Zürich.

Ásdís Guðmundsdóttir gengur í raðir sænska liðsins Skara HF og hittir þar fyrir fyrrum liðsfélaga og vinkonu. Fyrr í sumar gekk Aldís Ásta Heimisdóttir til liðs við Skara og fylgjast þær vinkonur því áfram að. Ásdís hefur leikið 168 leiki fyrir KA/Þór í deild og bikar en rétt eins og Sunna steig hún ung sín fyrstu skref í meistaraflokki.

Ásdís hefur undanfarin ár verið að koma sterk inn í A-landslið Íslands og er án nokkurs vafa einn besti sóknarlínumaður landsins. Það verður gaman að fylgjast með framgöngu hennar og Aldísar hjá Skara í vetur og vonandi halda þær áfram að eflast og vinna sér í kjölfarið enn stærra hlutverk í A-landsliðinu.

VG

UMMÆLI