Framsókn

Varðveislumenn komnir á slóð skíðaherdeildar

Varðveislumenn komnir á slóð skíðaherdeildar

Ljósmyndir og kvikmynd sem sýnir norska skíðaherdeild við æfingar í vetrarhernaði í Lögmannshlíð og við rætur Hlíðarfjalls í seinni heimsstyrjöldinni, varð tilefni leiðangurs árið 2018. Ætlunin var að gera tilraun til að rekja slóð norsku hermannanna út frá myndunum. Það reyndist þrautinni þyngri. Erfitt er að átta sig á kennileitum á myndunum þar sem hermennirnir ferðast um í snævi þöktum hlíðunum, svæðið er gríðarlega víðfeðmt og mörgum stöðum í hlíðinni svipar til hvers annars. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan 2018 og leiðangrarnir skipta tugum. Fjölmargir gripir hafa komið í ljós og æfingabúðir setuliðsins efst í hlíðinni – við rætur Hlíðarfjalls – eru þekkt stærð í hópi Varðveislumanna minjanna, hópi áhugafólks um sögu, útivist og varðveislu minja.

Slóð norsku skíðaherdeildarinnar, frá bækistöðvum hennar nálægt Lónsbakka og upp í æfingabúðirnar í Hlíðarfjalli, hefur hins vegar verið ísköld þar til nú. Ýmsar tilgátur hafa sprottið fram um hvar nákvæmlega myndirnar eru teknar í Lögmannshlíð, hvar þeir ferðuðust um á skíðunum sínum, með hestana og hundana, berandi útvistarbúnað, tjöld, skotfæri, vélbyssur og riffla, matvæli, bjór og fleira. Leiðangrar VM hafa skilað sér í aukinni þekkingu á staðháttum og þannig hefur leitarsvæðið smám saman þrengst. Samanburður á gömlum og nýjum myndum varð til þess að von vaknaði um að lausn ráðgátunnar væri innan seilingar sem svo var staðfest í leiðangri nú í vikunni.

Hin nýja þekking leiðir eitt og annað áhugavert í ljós. Þannig virðist sem setuliðsmenn sem voru við æfingar í Hlíðarfjalli hafi sett upp tjaldbúðir víðar í hlíðunum ofan Akureyrar en áður var talið. Mögulega einhvers konar grunnbúðir þar sem nokkrir úr hópnum urðu eftir til að gæta hesta og hunda á meðan hinir fóru lengra upp eftir á skíðum, klæddir hvítum felubúningum og vopnaðir vélbyssum og handsprengjum. Myndirnar leiða enn fremur í ljós fleiri staði en vitað var um þar sem skotæfingar fóru fram. Þá fannst eldstæði ekki svo langt frá sem líklega má rekja til setuliðsmannanna. Varðveislumenn minjanna áætla að rannsaka staðina í sumar til að kanna hvort finna megi ummerki um tjaldbúðir og skotæfingar norsku hermannanna í Hlíðarfjalli og mögulega fleiri eldstæði.

Fleiri myndir má sjá á heimasíðu Grenndargralsins.

VG

UMMÆLI

Sambíó