NTC

Ungt fólk á Akureyri okkar allra

Ungt fólk á Akureyri okkar allra

Sólveig María Árnadóttir skrifar

Á Akureyri er frábært fyrir ungt fólk að búa. Einn margra kosta eru stuttar vegalengdir sem gefur aukinn tíma fyrir gæðastundir með fjölskyldu og vinum og meiri tíma til að sinna áhugamálum. Við búum svo vel að geta menntað okkur á öllum skólastigum í heimabyggð. Hér eru leikskólar vel mannaðir af fagfólki og óvíða er hlutfall fagmenntaðra starfsmanna leikskóla hærra en einmitt hér. Grunnskólar eru það vel mannaðir að hér fást einu sinni ekki launaðar starfsnámsstöður fyrir kennaranema úr Kennaradeild Háskólans á Akureyri, en persónulega tel ég að útfærslu starfsnámsins þurfi að sjálfsögðu að aðlaga að öðru en kennaraskorti á höfuðborgarsvæðinu. Hér er gott framhaldsnám í boði, með vali um iðn- og bóknám. Auk þess sem hér er háskóli sem varla þarf að tíunda um hér hversu mikilvægur er fyrir samfélögin utan höfuðborgarinnar.

Við eigum fjölda íþróttafélaga sem við getum verið stolt af og allir sem hér búa geta svo sannarlega fundið eitthvað við sitt hæfi til að rækta bæði líkama og sál. FÉLAK sinnir mikilvægu og öflugu forvarnarstarfi fyrir ungmennin okkar og því þarf að hampa og efla. Þá á unga fólkið sína talsmenn í ungmennaráði en ég vil virkja það enn frekar og gera það sýnilegra en við sem barnvænt samfélag eigum að sjálfsögðu að hlusta á raddir þeirra og taka mið af þeim.

Allt er þetta grunnurinn að sterku samfélagi þar sem er eftirsóknarvert að búa. Samfélag sem býr til góða umgjörð utan um börnin okkar og heldur vel utan um okkur það sem eftir er. Við stöndum vel að vígi en betur má ef duga skal. Áherslumál Sjálfstæðisflokksins á Akureyri taka svo sannarlega mið af hagsmunum unga fólksins. Traust fjármálastjórnun skiptir þar miklu máli þar sem lögð verður áhersla á að lækka álögur á bæjarbúa en þar er meðal annars horf til gjalda sem hafa hækkað vegna utanaðkomandi þátta, svo sem fasteignagjalda og búa þannig um hnútana að Akureyrarbær standist samanburð við önnur sveitarfélög á landinu hvað það varðar. Þá viljum við einnig að leikskólapláss verði gjaldfrjáls fyrir öll börn frá 12 mánaða aldri en með því er svo sannarlega komið til móts við unga fólkið okkar með börnin, sem ber mestu byrðarnar vegna íbúðarlána og leigu.

Á lista Sjálfstæðisflokksins er fjölbreyttur hópur fólks sem flest eiga það sameiginlegt að hafa sjálft gengið sína skólagöngu hér, eða hafa og eiga börn í skólum bæjarins. Ég er sjálf menntaður kennari frá HA og þekki því skólakerfið afar vel. Á listanum eru einnig reynsluboltar sem starfa sjálfir í skólum bæjarins. Við búum yfir nauðsynlegri innsýn í þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir og þekkingu á því hvar taka þarf til hendinni.

Það er lykilatriði að unga fólkið mæti á kjörstað. Kosningaréttinum má aldrei taka sem sjálfsögðum hlut og okkur ber að nýta hann. Með því að kjósa höfum við bein áhrif á það hvaða fólk tekur sæti í bæjarstjórn og kemur til með að hafa áhrif á nærsamfélagið okkar til næstu ára. Við í Sjálfstæðisflokknum höfum skýra framtíðarsýn og vitum að kominn er tími á breytingar og uppbyggingu. Setjum X við

D þann 14. maí fyrir Akureyri okkar allra.

Sólveig María Árnadóttir skipar 8. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í komandi sveitarstjórnarkosningum þann 14. maí nk.

VG

UMMÆLI

Sambíó