Hvers kyns íþróttafélög hefur Akureyri að geyma?

Hvers kyns íþróttafélög hefur Akureyri að geyma?

Karl Vinther skrifar

Í vetur sótti ég fyrirlestur á vegum Íþróttabandalags Akureyrar þar sem Þorsteinn V. Einarsson, kennari, kynjafræðingur, ábyrgðarmaður og eigandi karlmennskan.is, fjallaði um eitraða karlmennsku í íþróttum. Að fyrirlestrinum loknum voru umræður þar sem áheyrendur gátu spurt Þorstein ráða og þóttu mér áberandi spurningar og umræða mæðra og ungra kvenna sem stunda íþróttir á Akureyri um hvernig staðið væri að kynja- og jafnréttisfræðslu í þeirra félögum.

Á Akureyri eru tvö félög mjög áberandi, KA og Þór, sérstaklega þegar kemur að umræðunni um uppbyggingu íþróttamannvirkja. Það gleður mig að sjá að starfsemi félaganna er að mestu leyti fjölbreytt og glæsileg og eiga bæði félögin sínar núverandi og komandi framkvæmdir fyllilega skilið til að halda áfram sínu afar mikilvæga starfi.

Það gleður mig sérstaklega að sjá iðkun rafíþrótta vaxa og dafna innan veggja Þórs, en ég er þeim mikið tengdur. Ég hef starfað með fjölda af rafíþróttaliðum og deildum og unnið náið með Rafíþróttasamtökum Íslands við öll þeirra helstu mót. Mín helsta ástríða, þegar kemur að rafíþróttum, er þó keppni sem heitir Almenni Rafíþróttir. Það eru samtök sem halda eins konar „streetball“ mót fyrir allar tegundir rafíþrótta og er hugmyndinn sprottin upp úr Overwatch samfélaginu, þar sem Almenni hefur verið mest áberandi. Í Almenna kemur saman fjöldinn allur af tilbúnum liðum, sem og einstaklingar, í nokkrar deildir og keppa um Almenna Bikarinn. Þar keppa karlar og konur saman og hefur Almenni náð ákveðnu kynjahlutfalli innan rafíþrótta, um 30% á móti 70%.

Það er kominn tími til að íþróttafélög á Akureyri taki jafnréttismál alvarlega.

Jafnréttisáætlun bæði Þórs og KA virðist styðjast að mestu leyti við tillögu sem Jafnréttisstofa setti fram fyrir íþróttafélög sem miðuð var við lög frá 2008, jafnvel þó áætlun Jafnréttisstofu, og lögin, hafi verið uppfærð síðan. Uppfæra þarf áætlanir félagana strax og þarf umræða að eiga sér stað um hvort gera skuli ítarlegri áætlun en tillaga Jafnréttisstofu gerir ráð fyrir, jafnt hjá KA og Þór.

Iðkun flestra íþrótta krefst þess að skráning fari eftir kyni karla og kvenna. Því þarf enn önnur umræða að eiga sér stað vegna stöðu þeirra sem kjósa hlutlausa kynskráningu í ljósi þeirrar skyldu sem nýju jafnréttislögin frá 2020 gera varðandi þennan hóp. Samkvæmt jafnréttisáætlun Þórs og KA virðist fræðslan eingöngu miðuð við þjálfara og starfsfólk, jafnvel þótt fræðslan sé undir liðnum „Iðkendur“ í jafnréttisáætlun félaganna. Ég skora á bæði KA og Þór að miðla fræðslunni til iðkendanna sjálfra, því þar geta stærstu breytingarnar átt sér stað. Þá er ekki síður nauðsynlegt að inni í jafnréttisáætlunum og jafnréttisfræðslunni sé tekið mið af lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna frá árinu 2018, enda eru þau lög hluti af jafnréttisstefnu stjórnvalda.

Íþróttamannvirki eru mjög kostnaðarsöm framkvæmd, en góð jafnréttisfræðsla kostar smáaura í samanburði. Bæði atriðin eru hins vegar nauðsynleg skref til að bæta árangur framtíðar barna og íþróttafólks, sem og samfélagsins alls.

Höfundur skipar 2. sæti Pírata á Akureyri.

VG

UMMÆLI

Sambíó