NTC

„Hópur fólks með ólíka reynslu og bakgrunn allstaðar að úr sveitarfélaginu“

„Hópur fólks með ólíka reynslu og bakgrunn allstaðar að úr sveitarfélaginu“

Níu flokkar bjóða fram í bæjarstjórnarkosningum á Akureyri sem fara fram 14. maí næstkomandi. Oddvitar flokkanna segja frá helstu stefnumálum á Kaffið.is ásamt því að svara spurningum um ákveðin hitamál úr bæjarmálaumræðunni undanfarin ár.

Í dag situr Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, oddviti VG á Akureyri, fyrir svörum, og segir okkur frá helstu stefnumálum flokksins.

Sjá einnig:

Snorri Ásmundsson – Kattaframboðið

Hilda Jana Gísladóttir – Samfylkingin

Hrafndís Bára Einarsdóttir – Píratar

Sunna Hlín Jóhannesdóttir – Framsókn

Gunnar Líndasl Sigurðsson – L-listinn


Hver eru ykkar helstu stefnumál fyrir komandi kosningar?

Okkar stefnumál byggja á því að tryggja jöfnuð í samfélaginu okkar. Í öllum ákvarðanatökum þarf að taka mið af vandaðri stjórnsýslu, lýðheilsu, umhverfis- og loftslagsáhrifum, jafnrétti og jöfnuði íbúa óháð efnahag. Akureyrarbær hefur alla burði til að vera leiðandi í umhverfis- og loftslagsmálum og við þurfum að halda áfram á þeirri vegferð.

Hvaða aðgerðir stefnið þið á ef þið komist að í bæjarstjórn?

  • Tryggjum fjármagn í aðgerðir Umhverfis- og loftslagsstefnu Akureyrarbæjar
  • Innleiðum nýtt leiðakerfi strætó
  • Eflum gagnsæi í stjórnsýslunni og íbúasamráð
  • Vinnum að gjaldfrelsi í leik- og grunnskólum
  • Hækkum frístundastyrki til barna og festum frístundastrætó í sessi
  • Tryggjum fjármagn til að framfylgja aðgerðaráætlun í málefnum eldri borgara
  • Tryggjum fólki með fötlun viðeigandi þjónustu og virðum einkunnarorð sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, “Ekkert um okkur, án okkar”
  • Gefum öllum möguleika á þátttöku í menningarstarfi, óháð stétt og stöðu
  • Í allri skipulagsvinnu skal horfa til sögulegs samhengis umhverfis og sérstöðu hverfa
  • Við viljum að Akureyrarbær auglýsi öll störf sem mögulegt er að vinna án staðsetningar, i öllum byggðakjörnum sveitafélagsins, það er Akureyri, Hrísey og Grímsey

Hver er stefna ykkar þegar kemur að lausagöngu katta?

Innan VG eru skiptar skoðanir um lausagöngu katta. Við höfum hins vegar margar útfærslur í sveitarfélaginu okkar, í Grímsey er kattahald bannað, í Hrísey er lausaganga bönnuð og eins og staðan er á Akureyri núna verður lausaganga katta bönnuð að næturlagi. Hins vegar teljum við stofnun dýraathvarfs í líkingu við það sem við sjáum fyrir sunnan nauðsynleg.

Hver er ykkar stefna í skipulagsmálum á Akureyri?

Skipulag þarf alltaf að vera á forsendum alhliða heilsueflingar, bæði líkamlegrar og andlegrar, auk þess að hámarka loftgæði. Við gerð nýs skipulags og breytingar á eldra skipulagi skal horfa til sögulegs samhengis umhverfis og sérstöðu hverfa, það á bæði við um Tónatröð og Oddeyrina. Svo þurfum við alltaf að hafa jafnræði í huga við úthlutun lóða.

Hver er stefna ykkar í uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri?

Á núverandi kjörtímabili var samþykkt áætlun um uppbyggingu íþróttamannvirkja, þeirri áætlun þarf að fylgja og halda áfram að vinna uppbyggingu og endurbætur á íþróttamannvirkjum með þessum hætti. 

Hver er stefna ykkar í umhverfismálum á Akureyri?

Akureyrarbær hefur allar forsendur til að vera í fararbroddi og fyrirmynd þegar kemur að umhverfis- og loftslagsmálum.

  • Aukum vægi umhverfis- og loftslagsmála innan umhverfis- og mannvirkjaráðs/sviðs.
  • Tryggjum fjármagn til að ljúka gerð og framfylgja umhverfis- og loftslagsstefnu.
  • Náum kolefnishlutleysi árið 2040.
  • Svifryk á ekki að fara yfir heilsuverndarmörk. Drögum úr svifryki með því að styðja við virka ferðamáta, með betri gatnahreinsun, þróun í hálkuvörnum og minni notkun nagladekkja.
  • Bætum aðgengi og aðbúnað á grænum svæðum og gönguleiðum.
  • Fjölgum matjurtagörðum sem íbúar geta leigt, aukum fræðslu og hvetja til heimaræktunar.
  • Akureyrarbær móti sér landnýtingarstefnu, sem við allar framkvæmdir miði að því að fyrirbyggja mengun, lágmarka rask náttúru og lífvera og endurnýtingu jarðvegs. Einnig að verndun og endurheimt votlendis, skóga og annarra vistkerfa. Skógrækt og landgræðsla verði skipulögð með líffræðilega fjölbreytni og kolefnisbindingu í huga.
  • Drögum úr matarsóun á sveitarstjórnarstiginu.

Hver er stefna ykkar þegar að kemur að göngugötunni í miðbænum?

Göngugatan á að vera lokuð fyrir bílaumferð.

Hver er stefna ykkar þegar kemur að sölu áfengis í Hlíðarfjalli?

Áfengissala á ekki að vera leyfð í íþróttamannvirkjum Akureyrarbæjar, sér í lagi ekki þegar talað er um íþróttir sem bestu forvörnina. Á meðan Akureyrarbær rekur Hlíðarfjall á áfengissala ekki að vera heimil. 

Af hverju ættu Akureyringar að kjósa flokkinn?

Hreyfingin okkar á Akureyri samanstendur af fjölbreyttum hópi fólks með ólíka reynslu og bakgrunn allstaðar að úr sveitarfélaginu, þar með talið Hrísey og Grímsey. Þannig fáum við raddir ólíkra hópa í sveitarfélaginu að borðinu. Jöfnuður og umhverfismál er það sem litar allar okkar ákvarðanir og stefnur og einmitt þess vegna ættir þú kjósandi góður að setja X við V.

VG

UMMÆLI