NTC

Brotthvarf í framhaldsskólum – hvar liggur ábyrgð sveitarfélaga?

Brotthvarf í framhaldsskólum – hvar liggur ábyrgð sveitarfélaga?

Sif Jóhannesar Ástudóttir skrifar

Framhaldsskólar geta ekki einir axlað ábyrgð og dregið úr brottfalli nemenda, brottfall er ekki stakur viðburður heldur miklu frekar hluti af ferli sem hófst löngu fyrr. Víða birtast neikvæð áhrif ójöfnuðar í samfélaginu og brottfallið er ein þeirra birtingarmynda.

Nýverið kom út á vegum Velferðarvaktarinnar skýrslan Félagsleg og efnahagsleg staða og brotthvarf úr íslenskum framhaldsskólum. Skýrslan er greining á gögnum Hagstofu Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneytis um brotthvarf og námstafir á framhaldsskólastigi. Í henni eru þessi gögn greind út frá félagslegum og efnahagslegum bakgrunni nemenda og námsárangri á grunnskólastigi. 

Niðurstöður skýrslunnar benda til að ójöfn tækifæri birtist í brottfalli nemenda úr framhaldsskólum. Að ekki sé rétt gefið og að við sem samfélag þurfum að gera betur til draga úr áhrifum bakgrunns á tækifæri einstaklinga. Skýrslan sýnir tengsl ákveðinna félagslegra þátta við brottfall úr framhaldsskólum. Niðurstöður hennar ættu að vera áttaviti fyrir sveitarfélögin, til að vísa þeim veginn um hvar skóinn kreppir og hvar þarf að bregðast við. 

Höfundar skýrslunnar telja að brotthvarfið eigi sér félagslegar rætur og að inngrip snemma í námsferli barna sé mikilvægt í þessu samhengi. Brotthvarfið er því langt frá því að vera bara viðfangsefni framhaldsskólanna, þar koma fram áhrif af aðstæðum sem eiga sér dýpri rætur. Sveitarfélögin verða að bregðast við og leita allra leiða til að bregðast við þessum niðurstöðum. Nota þau verkfæri sem þau hafa til að grípa inn í snemma í ferlinu, styðja við foreldra og börn til að draga úr áhrifum félagslegra aðstæðna á framtíðarhorfur ungmenna í námi. 

Eflum það sem vel er gert

Hjá Akureyrarbæ er nú þegar margt mjög vel gert til að draga úr þessum áhrifum. Við skólana starfar öflugur hópur fagfólks sem ber hag nemendanna fyrir brjósti. Askja sem er úrræði innan velferðarsviðs er úrræði sem skiptir miklu máli og grípur fjölskyldur í vanda. Hér mætti lengi telja og margt gott gert. En í þessum málaflokki má aldrei slaka á, við þurfum alltaf að gera betur og það er skylda okkar sem samfélags að reyna ávallt að ná lengra til að jafna kjör barna óháð félagslegum aðstæðum. Að leiðin sé ekki vörðuð hindrunum frá fæðingu, hindrunum sem hægt er að draga úr eða fjarlægja. 

Göngum lengra í að tryggja að félagslegar aðstæður barna dragi ekki úr möguleikum þeirra á námi til framtíðar. 

Við vinstri græn á Akureyri erum með í okkar stefnu ýmislegt sem vísar beint til þessa raunveruleika sem birtist í skýrslunni. 

Við leggjum áherslu á að leik- og grunnskólaganga, skólamáltíðir og frístundastarf verði gjaldfrjáls og það verði framkvæmt í skrefum. Þá vegferð þarf að hefja strax. Við leggjum til að tómstundastyrkur verði hækkaður og við þá hækkun verði stutt við barnmargar fjölskyldur með því að hækka styrkinn hlutfallslega miðað við fjölda barna í fjölskyldu. Einnig viljum við festa frístundastrætó í sessi m.a. til að auka sjálfstæði barna í íþróttaiðkun og draga þá um leið úr líkum á að aðstæður heima fyrir, skortur á tíma, bílaeign eða hreinlega eldsneytiskostnaður dragi ekki úr tómstundaiðkun barna. 

Efla þarf þjónustu við börn enn frekar með tilliti til ólíkra námsforsendna og leita allra leiða til að börn geti fengið þá þjónustu sem þau þurfa sem fyrst þegar ljóst er að hennar er þörf. Þannig að vandinn verði ekki að sístækkandi snjóbolta sem krefst róttækari aðgerða sé of seint brugðist við. 

Börnum sem eiga annað móðurmál en íslensku fjölgar hér sem annars staðar á landinu. Efla þarf faglegt starf og þjónustu við þann hóp, einkum hvað varðar íslenskukennslu. Það er áfram mikilvægt að valdefla þann hóp barna svo þau standi jafnfætis öðrum börnum þegar kemur að framhaldsnámi. 

Göngum lengra til að byggja upp jafnara og hamingjusamara samfélag.

Sif Jóhannesar Ástudóttir er verkefnastjóri og skipar 3. sæti á lista VG fyrir bæjarstjórnarkosningarnar á Akureyri

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó