NTC

Jafnréttisviðurkenningar Akureyrar árið 2022Berglind Júlíusdóttir og Sigríður Edda Ásgrímsdóttir taka við viðurkenningunni

Jafnréttisviðurkenningar Akureyrar árið 2022

Norðurslóðanetið, Berglind Júlíusdóttir og Sigríður Edda Ásgrímsdóttir hlutu jafnréttisviðurkenningar Akureyrarbæjar árið 2022. Árlega veitir Akureyrarbær sérstaka viðurkenningu vegna mannréttindamála og í ár eru það annars vegar einstaklingar og hins vegar stofnun sem hlýtur viðurkenninguna.

Sjá einnig: Kristján Edelstein er bæjarlistamaður Akureyrar 2022

Norðurslóðanetið hlýtur mannréttindaviðurkenningu Akureyrarbæjar árið 2022. Í tilkynningu Akureyrarbæjar segir að Norðurslóðanetið hafi ötullega sinnt málefnum sem snerta kynjajafnrétti á norðurslóðum. Í um áratug hefur Norðurslóðanetið stýrt verkefninu Gender Equality in the Arctic sem beinir sjónum að kynjajafnrétti á norðurslóðum þar sem áhersla er lögð á mikilvægi þess að viðurkenna og meta fjölbreytileika hvað varðar kyn, frumbyggja, stjórnarhætti, menntun, hagkerfi, félagslegan veruleika, sjálfbærni og þátttöku í forystu og ákvarðanatöku bæði í opinbera geiranum og einkageiranum. Stórum áföngum hefur verið náð með þrotlausri vinnu að verkefninu, m.a. með útgáfu tímamótaskýrslu um stöðu jafnréttis á Norðurslóðum sl. vor. Embla Eir Oddsdóttir er framkvæmdastjóri Norðurslóðanetsins.

Mannréttindaviðurkenningu Akureyrarbæjar hljóta að þessu sinni þær Berglind Júlíusdóttir og Sigríður Edda Ásgrímsdóttir, hjúkrunarfræðingar og meðlimir í Rauða krossinum á Akureyri, fyrir framlag sitt í verkefninu Frú Ragnheiður á Akureyri. Frú Ragnheiður er skaðaminnkandi verkefni sem felst í nálaskiptaþjónustu, sálrænum stuðningi og heilbrigðisaðstoð fyrir einstaklinga sem nota vímuefni í æð. Verkefnið miðar að því að ná til jaðarsettra einstaklinga í samfélaginu og draga úr áhættu og skaða sem hlotist getur af notkun vímuefna, með valdeflingu að leiðarljósi.

Sambíó

UMMÆLI