NTC

Kristján Edelstein er bæjarlistamaður Akureyrar 2022

Kristján Edelstein er bæjarlistamaður Akureyrar 2022

Kristján Edelstein, tónlistarmaður, er bæjarlistamaður Akureyrar árið 2022. Þetta var tilkynnt á Vorkomu á vegum Akureyrarbæjar í dag, sumardaginn fyrsta.

„Kristján fæddist í Freiburg í Þýskalandi þann 18. ágúst 1962 og hefur haft tónlist að aðalstarfi síðan árið 1981. Hann stundaði klassískt nám á gítar og píanó í Tónlistarskóla Reykjavíkur og síðar rafgítarnám við Berklee College of Music í Boston. Ungur varð Kristján landskunnur gítarleikari og starfaði með þekktum hljómsveitum, auk þess að leika inn á fjölda hljómplatna fyrir þjóðþekkta tónlistarmenn. Kristján mun verja starfslaunatímabilinu í tónsmíðar, útsetningar, hljóðupptökur og flutning á eigin tónsmíðum. Hann mun kynna nýja tónsmíð á vefmiðlum í hverjum mánuði þar sem mynd og hljóðskrá verður varpað á netið og opnað fyrir gagnvirkar umsagnir og samræður. Að loknu starfsári verða þessar nýju tónsmíðar gefnar út á hljómplötu og útgáfutónleikar eru áformaðir í kjölfarið,“ segir á vef bæjarins.

Á Vorkomunni voru einnig veittar ýmsar viðurkenningar. Heiðursviðurkenningar Menningarsjóðs Akureyrar hlutu Þröstur Ásmundsson, fyrrverandi formaður menningarmálanefndar, kennari og þýðandi, og Aðalsteinn Bergdal, menningarfrömuður.

Byggingalistaverðlaun Akureyrar hlaut Gísli Jón Kristinsson, arkitekt FAÍ fyrir ævistarf í þágu byggingalistar á Akureyri undanfarna fjóra áratugi.

Árlega veitir Akureyrarbær sérstaka viðurkenningu vegna mannréttindamála og í ár voru það annars vegar einstaklingar og hins vegar stofnun sem hlutu viðurkenninguna. Fyrri viðurkenninguna hlaut Norðurslóðanetið sem hefur ötullega sinnt málefnum sem snerta kynjajafnrétti á norðurslóðum. Seinni viðurkenninguna hlutu þær Berglind Júlíusdóttir og Sigríður Edda Ásgrímsdóttir, hjúkrunarfræðingar og meðlimir í Rauða krossinum á Akureyri, fyrir framlag sitt til verkefnisins Frú Ragnheiður á Akureyri.

Sjá einnig: Jafnréttisviðurkenningar Akureyrar árið 2022

Þess er loks að geta að Menningarsjóður Akureyrar styrkir árlega ýmis menningarverkefni og í ár voru veittir 18 verkefnastyrkir fyrir 4.350.000 kr. og 9 samstarfssamningar fyrir 3.250.000 kr. Sérstök athygli er vakin á því að enn er mögulegt að sækja um verkefnastyrki í sérstakan sjóð fyrir ungt og efnilegt listafólk, fyrir smærri verkefnum á meðan fjármagn leyfir.

Vorkomu Akureyrarbæjar 2022 er að finna HÉR

Upphafsávarp Ásthildar Sturludóttur bæjarstjóra

Bæjarlistamaðurinn Kristján Edelstein

Heiðursviðurkenning: Þröstur Ásmundsson

Heiðursviðurkenning: Aðalsteinn Bergdal

Byggingalistaverðlaun: Gísli Jón Kristinsson

Jafnréttisviðurkenningar: Norðurslóðanetið, Berglind Júlíusdóttir og Sigríður Edda Ásgrímsdóttir

Verkefni sem Menningarsjóður Akureyrar styrkir árið 2022

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó