A! Gjörningahátíð

20 þúsund óku yfir leyfilegum hámarkshraða á átta dögum

20 þúsund óku yfir leyfilegum hámarkshraða á átta dögum

Aðalsteinn Svan Hjelm, íbúi í Oddeyrargötu á Akureyri, hefur tekið saman 8 daga mælingu Akureyrarbæjar sem átti sér stað dagana 21. til 29. júní árið 2021 vegna umferðar í götunni og reiknað út hraðasektirnar sem þeir sem óku þar of hratt á umræddum tíma hefðu fengið. Samtals hefðu sektir numið 105.470.000 kr á 8 dögum. 

Sundurliðun á sektunum má sjá á eftirfarandi mynd en þar er búið að taka að fullu tillit til 3 til 4 kílómetra á klukkustund skekkjumarka lögreglu við mælingum úr báðum áttum. Aðalsteinn hafði skekkjumörkin 5 kílómetra á klukkustund í þessu dæmi til einföldunar.

Af 25.000 fólksbílum sem leyft var að renna óhindrað í gegnum íbúagötuna á milli stofnbrauta á umræddum 8 dögum óku um 20.000 yfir leyfilegum hámarkshraða, um 14.000 þeirra hefðu fengið hraðasekt og/eða hefðu misst ökuréttindin hefði verið hraðamyndavél og 10 hefðu misst ökuréttindin.

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti að hefja undirbúning að gerð umferðisöryggisáætlunar í bænum á bæjarstjórnarfundi 15. mars síðastliðinn.Aðalsteinn segir að íbúasamtökin í Oddeyrargötu bíði spennt eftir því að fá að heyra frá Akureyrarbæ hvað standi til að gera með vorinu og grípa inn í „þá óöld sem þar ríkir í umferðarmálum.“

Sjá einnig: Bæjarstjórn samþykkir að hefja undirbúning að gerð umferðaröryggisáætlunar

„Við erum að reyna með öllum mögulegum nálgunum að koma Akureyrarbæ í skilning um hvað ástandið hér í íbúagötunni okkar er óboðlegt, bæði fyrir þá sem hér búa en ekki síst fyrir aðra gangandi og hjólandi vegfarendur sem hér eiga leið um. Hér er ekki spurning hvort heldur hvenær meiriháttar slys muni eiga sér stað á vegfarendum, jafnvel dauðaslys, vegna hraðaksturs,“ segir Aðalsteinn.

„Við höfum engar mælingar fengið í hendurnar, þrátt fyrir ótal beiðnir þar um, sem benda til þess að ástandið sé verra í öðrum sambærilegum íbúagötum á Akureyri. Því göngum við út frá því, þar til annað kemur í ljós, að Oddeyrargatan sé samkvæmt fyrirliggjandi mælingum sannarlega sú gata þar sem ástandið er verst. Hér fóru íbúar að mótmæla umferðinni upp úr 1980, sem sýnir glöggt að vandamálið er ekki nýtt af nálinni en fer sannarlega versnandi. Við væntum aðgerða ekki seinna en strax.“

Mælingar Akureyrarbæjar

Sambíó

UMMÆLI