Samkvæmt lögum um menningarminjar frá árinu 2012 má skipta fornminjum í tvo flokka. Til einföldunar má segja að lausamunir teljist til forngripa á meðan mannvistarleifar flokkist sem fornleifar (Lög um menningarminjar nr. 80/2012). Í báðum tilfellum gildir hin svokallaða hundrað ára regla þ.e. hlutir og mannvirki njóta aðeins verndar þegar þeir hafa náð 100 ára aldri. Heimilt er þó að friðlýsa minjar sem ekki hafa náð hundrað ára markinu.
Eins og flestum er kunnugt var flugvöllurinn á Melgerðismelum í Eyjafirði sögusvið stríðsáranna. Herinn var með mikil umsvif á Melunum en auk flugvallarins reis þar allstórt braggahverfi. Nú 80 árum síðar blasa veðraðir grunnar bragganna við þeim sem eiga leið hjá sem og stór vatnstankur sem stendur enn í hlíðinni fyrir ofan braggagrunnana. Á víð og dreif liggja tölur úr flíkum, smápeningar, bjórdósir og aðrir smámunir úr fórum setuliðsmanna. Flugbrautin sem sjálfur Winston Churchill gerði að umtalsefni í heimsókn sinni til Íslands árið 1941 er á sínum stað. Flugskýli sem margir muna eftir með áletruninni NO SMOKING WITHIN 50 FT stendur enn við veginn þegar keyrt er framhjá flugvallarsvæðinu.
Þegar setuliðsmennirnir á Melgerðismelum hurfu á braut í stríðslok tóku bændur hluta af herbúnaðinum í sína vörslu. Annað var fjarlægt eða eyðilagt. Í seinni tíð hafa bústaðir risið á grunnum bragganna og enn aðrir horfið undir græna torfu. Þannig sjást sífellt minni ummerki um veru setuliðsins á Melunum eftir því sem árin líða. Annað dæmi um þetta er Hrafnagil, ekki svo ýkja langt frá Melgerðismelum. Þar eru líklega síðustu grunnar spítalabragganna sem þar stóðu að hverfa undir nýbyggingar. Ennþá eru tæpir tveir áratugir í að lausamunir og mannvistarleifar setuliðsins á Melgerðismelum – sem þó er enn að finna þar – flokkist sem forngripir og fornleifar. Því er nægur tími til að nýta, fjarlægja eða eyðileggja áður en 100 ára reglan „tryggir“ varðveislu.
Varðveislumenn minjanna fóru í nokkrar vettvangsferðir á Melana á síðasta ári. Meðal þess sem leiðangursmenn fýsti að vita var fjöldi braggagrunna á staðnum. Loftmynd frá stríðsárunum (svarthvít mynd til hægri) sýnir svo ekki verður um villst að fjöldi bragga á svæðinu var umtalsvert meiri en sýnileg ummerki í dag segja til um. Myndin, sem tekin er í maí árið 1942, er til marks um það hvernig tíminn máir minjarnar út.
Vegna vinnu við aðalskipulagsgerð á Melgerðismelum á tíunda áratug síðustu aldar var ákveðið að skrá fornleifar á svæðinu. Afrakstur þeirrar vinnu birtist í skýrslu sumarið 1995 en um var að ræða samstarfsverkefni Fornleifastofnunar Íslands, Minjasafnsins á Akureyri, Héraðsnefndar Eyjafjarðar og Eyjafjarðarsveitar. Um skráningu sáu þeir Adolf Friðriksson og Orri Vésteinsson. Í skýrslunni tala þeir Adolf og Orri um nauðsyn þess að leggja mat á menningarsögulegt gildi stríðsminja á Melgerðismelum þrátt fyrir að ekki sé unnt að styðjast við neina stefnu í þeirri vinnu. Stefnan sé einfaldlega ekki til. Fornleifaskráningin árið 1995 fól ekki í sér ítarlega úttekt á stríðsminjum á Melunum. Skýrsluhöfundar segja það þó verðugt verkefni þar sem slíkt mat hefði ekki farið fram. Ekki þurfi að efast um sögulegt gildi staðarins.
Á Melgerðismelum hefur nýlega verið hannað sumarbústaðaland á stríðsminjasvæðinu. Þar er fyrirhugað að leggja vegi og reisa allnokkra sumarbústaði þar sem nú eru gömul braggastæði og fleiri stríðsminjar. Nú þegar hefur verið reistur einn bústaður samkvæmt fyrirliggjandi uppdrætti, sem samþykktur var 1987 af skipulagsstjórn, hreppsnefnd Saurbæjarhrepps og staðfestur af Félagsmálaráðuneyti. Verði framkvæmdum haldið áfram samkvæmt þeirri áætlun munu minjarnar verða að víkja. Verður þá ekki aftur snúið. Markverðum heimildum um hlut Íslands í heimsstyrjöldinni síðari verður eytt og tæpast verður unnt að gera svæðið aðlaðandi eða spennandi fyrir ferðamenn. Á það má minna að jafnvel þó að setuliðið hafi haft mikil umsvif í Eyjafjarðarsveit eru ummerki um veru þess óðum að hverfa og hefur t.a.m. nýlega verið rutt burt öllum ummerkjum um bragga og spítala á Hrafnagili. Minjunum á Melgerðismelum hefur enn ekki verið spillt að neinu ráði og er enn svigrúm til að bjarga þeim frá eyðileggingu og varðveita þannig þessar einstöku heimildir um sögu lands og héraðs. Með hliðsjón af menningarsögulegu gildi minjasvæðisins og mögulega hagnýtu gildi þess einnig, er hér með lagt til að Eyjafjarðarsveit komi því í kring að ekki verði af frekari framkvæmdum eða raski um sinn. Þó skammt sé um liðið frá staðfestingu þessa uppdráttar, þá hefur löggjöf um fornleifavernd, skipulagsgerð og umhverfisvernd tekið stakkaskiptum. Æskilegt væri að við nýframkvæmdir í Eyjafjarðarsveit verið unnið í anda hinna nýju laga og þeirra almennu viðhorfa sem nú gilda um verndun minja og náttúru. Hér er einnig lagt til að Eyjafjarðarsveit láti gera sérstaka skráningu á minjasvæðinu, þ.e. deiliskráningu og á grundvelli hennar verði teknar ákvarðanir um framtíðarráðstöfun þess. Með því móti gefst ráðrúm til að leggja fram vandlega rökstudda greinargerð um verndun svæðisins að hluta eða í heild, um hugsanlega kynningu á svæðinu fyrir ferðamenn og leita samkomulags við hagsmunaaðila. (Orri Vésteinsson og Adolf Friðriksson, 1995, bls. 16)
Heimild: Grenndargralið
UMMÆLI