NTC

Hættum þessu kjaftæði

Hættum þessu kjaftæði

Ketill Sigurður Jóelsson skrifar:

Hættum þessu kjaftæði og verjum minni tíma í málefni sem hægt er að afgreiða hratt og örugglega með því að styðjast við bestu fáanlegu gögn þess augnabliks, taka ákvörðun og framkvæma.

Það getur verið dýrt að þora ekki að taka ákvörðun og framkvæma ekki. Það er alltaf betra að taka upplýstar og hraðar ákvarðanir í stað þess að veltast um með þær í lengri tíma.

Þegar stjórnmálamaður tekur ekki ákvarðanir þá skortir stefnu og frumkvæði. Þau vinnubrögð smitast niður í starfsemi sveitarfélagsins. Hræðsla við ákvarðanir leiðir til bráðabirgðaaðgerða, sóunar á tíma og slæmri meðferð á fjármunum bæjarbúa.

Ég þekki rekstur sveitarfélagsins vel eftir að hafa starfað þar og þess vegna veit ég vel frá fyrstu hendi hvar gera má betur í rekstri þess.

Með skýrri stefnu, hraðari ákvarðanatöku og með meiri kraft í rafræna stjórnsýslu má ná ótrúlega góðum árangri á töluvert skemmri tíma en nú er verið að gera.

Akureyrarbær er eins og stórt fyrirtæki. En bærinn er með lögbundin verkefni í grunninn og þar fyrir utan mikilvægt hlutverk í að gera Akureyri að eftirsóttum stað til þess að búa á. Þessu þurfum við að geta sinnt með þeim tekjum sem til staðar eru og á hagkvæman hátt. Ef það tekst ekki þá þarf að taka til.

Ef rekstur fyrirtækis eða heimilisbókhald endar í mínus þá þarf að hagræða og/eða auka tekjur. Rafræn stjórnsýsla, efling atvinnulífs og fjölgun íbúa eru lang skemmtilegustu leiðirnar sem við getum valið á þeirri vegferð.

Ræðum það sem skiptir máli til framtíðar. Hvaða stefnu og ákvarðanir þurfum við að taka svo börnin okkar vilji búa hérna áfram eftir að þau fullorðnast og stofna sínar eigin fjölskyldur.

Höfundur er frambjóðandi í 1.-2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Akureyri þann 26. mars næstkomandi

Sambíó

UMMÆLI