Framsókn

Er lögreglan yfir gagnrýni hafin?

Er lögreglan yfir gagnrýni hafin?

Rúnar Freyr Júlíusson skrifar

Ég var einn af þeim fjölmörgu sem saman unnu að því að efla til mótmæla nú um helgina, bæði á Akureyri og í Reykjavík. Mótmælin, bæði sunnan og norðan heiða, fóru fram á friðsælan hátt. Þess vegna þykir mér afskaplega skrýtið að vera einn af þeim sem aðstoðarmaður dómsmálaráðherra sakar um að vega að störfum lögreglu.

Í sakleysi mínu taldi ég að um helgina hefðum við verið að nýta málfrelsi okkar í lýðræðisríki, en málið er greinilega ekki svo einfalt. Sjáðu til, lögreglan hefur engan eiginleika til þess að vinna sína vinnu ef múgurinn dirfist til þess að segja sína skoðun á aðgerðum hennar. Mikið er ég feginn að Brynjar fræddi mig í þessum málum.

Brynjar sjálfur, sem og Bjarni Benediktsson, hafa varpað fram þeirri spurningu um hvort að blaðamenn séu yfir lög hafnir. Aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, ásamt fleirum, virðist þó sjálfur halda að lögreglan sé yfir gagnrýni hafin. Að það stofni lögreglunni sem stofnun einhvern veginn í hættu að tjá sig um störf hennar. Af spurningunum tveimur tel ég þessa mun mikilvægari og viðhorf Brynjars gagnvart henni hreinlega stórhættulegt.

Af öllum stofnunum samfélagsins er það lögreglan sem brýnast er að almenningur hafi eftirlit með. Þegar það reynist nauðsynlegt í þágu samfélagsins að svipta fólk frelsi eða beita það líkamlegu valdi í nafni ríkisins er lögreglan ein með leyfi til þess. Þetta hlutverk má teljast nauðsynlegt, en það gefur auga leið að slíkt vald er vandmeðfarið og auðvelt að misnota. Viljum við búa í samfélagi þar sem lögreglan þarf ekki að svara til almennings? Þar sem góður samfélagsþegn er sá sem þegir og hlýðir, sama hvað gengur á? Slík samfélög er að finna víða um heim og ég leyfi mér að efast um að lesendur séu æstir í að flytja til þeirra ríkja. Ég er ekki sannfærður um að ég geti sagt það sama um aðstoðarmann dómsmálaráðherra.

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokki Íslands.

VG

UMMÆLI