NTC

Bólusett til hliðar

Bólusett til hliðar

Ég legg það nú ekki í vana minn að skrifa í blöðin og aðra rifrildissnepla, en hef þó gert undantekningar þegar mikið liggur við, eins og þegar ég var hjóluð niður við Drottningarbrautina og svo aftur í upphafi kórónaplágunnar. En nú get ég bara ekki orða bundist yfir umræðunni um bólusetningar barna og vil beina þessa orðum mínum sérstaklega til Þórólfs sóttvarnalæknis og bið hann og heilbrigðisyfirvöld að ígrunda það vel sem ég hef að segja!

Fyrir það fyrsta hef ég kynnt mér málið afar vel, hef lesið a.m.k fimm færslur á Facebook um málið og rætt það bæði í heitapottinum og í bakaríinu. Ég hef skoðað málið frá öllum hliðum og hlustaði meira að segja á það sem Björn mágur minn hefur að segja, þó það hafi aldrei neinn tekið mark á honum. Það er því seint hægt að ásaka mig um að vera ekki upplýst – en eru heilbrigðisyfirvöld það? Það er stóra spurningin?

Verst af öllu er hræðsluáróðurinn. Barnabörnin mín eru lafhrædd yfir öllum þessum fréttum sem ég les fyrir þau. Og nú á að sprauta þau niður, þrátt fyrir að ég hafi þrábeðið foreldra þeirra um að bíða þangað til við sjáum hvernig bóluefnið virkar á börn nágranna þeirra. Ég hef t.d. ekki séð nein gögn þess efnis að það sé ekki einmitt þetta bóluefni sem er að gera börn á landsbyggðinni alltof feit. Eða valdi því hvað strákar skora lágt í PISA lestrinum? Er Þórólfur tilbúinn að hafa það á samviskunni? Að íslensk börn séu samkeppnisfær í þeim skilningi að þau séu öll sami keppurinn? Ekki get ég hugsað mér það og bendi fólki iðulega á það ef það er of þungt fyrir minn smekk.

Ég heyrði líka af ungri stelpu sem var sprautuð með bóluefni og varð blind. Hún missti reyndar sjónina í bílslysi tveimur áratugum síðar, en var það ekki einmitt bólusetningin sem olli því að hún missti stjórn á skólabílnum? Það hefur aldrei verið afsannað.  Og hver á að hugsa um öll þessi blindu börn? Og þá spyr maður sig auðvitað:  hvað með okkur, aldraða og öryrkja? Er enginn að hugsa um það hvaða áhrif þetta hefur á okkur?

Svo heyrði ég það frá manni sem kallar ekki allt ömmu sína, enda þær báðar látnar, að þetta snerist allt saman um að sprauta einhverjum net-router 5G í æðar okkar. Þá verður ekkert mál fyrir Kínverjanna að hala niður hugsunum okkar og dónakarla að senda typpamyndir í gegnum mann. Ég lét auðvitað ginnast í bólusetningar af því ég var að fara til útlanda með honum Guðmundi mínum, svo ég neyðist til þess að taka þessar typpamyndir á mig, en ekki börnin. Segjum nei við því , segjum nei við bólusetningum barna að minnsta kosti þangað til Helgi, Guðrún og Daníel í næsta húsi eru búin fá þetta og við sjáum hvernig það breytir þeim.

Sigríður Jóhanna Jósepsdóttir

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó