NTC

Tilnefningar til manneskju ársins 2021 á Kaffinu

Tilnefningar til manneskju ársins 2021 á Kaffinu

Kaffið.is stendur fyrir vali á Akureyringi ársins 2021 og geta lesendur nú tekið þátt í kosningu til að velja þá manneskju sem stendur út.

Blaðamenn og álitsgjafar Kaffið.is hafa valið ellefu aðila sem eiga nafnbótina skilið í ár. Kjóstu í skoðanakönnuninni sem er að finna neðst í greininni. Úrslit verða tilkynnt á Kaffið.is á gamlársdag.


Birkir Blær Óðinsson

Birkir Blær kom sá og sigraði í sænsku Idol þáttunum í ár. Birkir hefur slegið í gegn undanfarna mánuði með frammistöðum sínum í þáttunum og fylgdust margir spenntir með leið hans alla leið að titlinum. Birkir heillaði áhorfendur ekki bara með sönghæfileikum sínum heldur einnig góðmennsku sinni og persónutöfrum.

Sjá einnig: Birkir Blær sigurvegari sænska Idolsins 2021


Handboltalið KA/Þór

Hér er ekki hægt að gera upp á milli. Stelpurnar í KA/Þór undir stjórn Andra Snæs Stefánssonar unnu alla titla sem voru í boði í handboltakeppnum á Íslandi á síðasta tímabili. Liðið keppti einnig í fyrsta sinn í Evrópukeppni í ár og frammistöðurnar þóttu góðar.

Sjá einnig: KA/Þór Íslandsmeistarar


Eyrún Gísladóttir

Eyrún hefur barist fyrir næringarríkri fæðu fyrir börn í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar á árinu. Barátta hennar skilaði sér í því að breytingar á fyrirkomulagi matseðla í leik- og grunnskólum bæjarins voru samþykktar í bæjarstjórn í september.

Sjá einnig: Breytingar á matseðlum í leik- og grunnskólum samþykktar


Halldór Kristinn Harðarson og Heiðdís Austfjörð

Halldór og Heiðdís fóru af stað með hlaðvarpsþáttinn Bannað að dæma á árinu. Þátturinn varð fljótlega einn sá vinsælasti á Íslandi. Markmiðið með þættinum er að fræðast án þess að dæma og hafa gaman af lífinu. Með ólíkum viðmælendum og skemmtilegri nálgun er þátturinn bæði skemmtun og ekki síst mikilvæg fræðsla um fjölbreyttan veruleika og viðfangsefni, þannig opna þáttastjórnendur umræðuna og minnka líkur á fordómum.

Sjá einnig: Vottar Jehóva með Andra Friðriks í Bannað að dæma


Birna Pétursdóttir

Birna er ofurhetja í menningarlífinu á Akureyri. Birna hefur slegið í gegn í sýningum á borð við Fullorðin og Benedikt Búálf. Í júní hlaut hún Grímuverðlaunin fyrir hlutverk sitt sem Daði dreki í Benedikt Búálfi.

Sjá einnig: Þakklát Mörtu og Þorvaldi fyrir að sjá eitthvað í sér


Íbúar á Hlíð

Íbúar á öldrunarheimilinu Hlíð á Akureyri lentu í öðru sæti í alþjóðlegri hjólakeppni á árinu. Yfir 200 lið tóku þátt í keppninni í ár og um 5000 þátttakendur frá 11 löndum. Í liði Hlíðar voru rúmlega 60 þátttakendur og voru alls hjólaðir 11.945 km.

Sjá einnig: Hlíð í 2. sæti í alþjóðlegri hjólakeppni – Besti árangurinn hingað til


Skapti Hallgrímsson

Skapti Hallgrímsson hefur haldið Akureyringum upplýstum á árinu sem ritstjóri Akureyri.net. Skapti fjallar ítarlega um málefni Akureyrar og Akureyringa á vefnum. Þar koma daglega inn áhugaverðar fréttir og blaðagreinar og fjallað er um fjölbreytt mannlíf bæjarins á skemmtilegan hátt.

Sjá einnig: Ætlar að vera sem mest sólarmegin í umfjöllun um menn og málefni


Mía Svavarsdóttir

Mía Svavarsdóttir hefur farið fyrir baráttu Akureyringa gegn banni á lausagöngu katta í bænum. Hún setti af stað undirskriftarlista gegn banninu sem um 4500 einstaklingar hafa skrifað undir.

Sjá einnig: Stóri, feiti kötturinn sem elti og lék við alla krakkana sem bjuggu í Norðurbyggð


Hjúkrunarfræðingar HSN og Slökkviliðið á Akureyri

Það var nóg að gera á árinu vegna Covid-19 faraldursins. Hjúkrunarfræðingar HSN þurftu að leggja hart að sér við bólusetningar á svæðinu sem gengu ævintýralega vel fyrir sig vegna frábærs samstarfs hjúkrunafræðinga og slökkviliðs Akureyrar og á þetta fólk mikla þökk fyrir.

Sjá einnig: Bólusetningar ganga best á Norðurlandi


Haukur Tryggvason

Það hefur margt gengið á síðustu árum vegna heimsfaraldurs en Haukur hefur haldið dampi sem eigandi Græna Hattarins á Akureyri. Í byrjun desember var Haukur verðlaunaður á Degi íslenskrar tónlistar fyrir framlag sitt til tónlistarlífs á Íslandi.

Sjá einnig: Græni hatturinn fékk viðurkenningu á degi íslenskrar tónlistar


Akureyrardætur

Hjólreiðakonurnar úr Hjólreiðafélagi Akureyrar fóru mikinn á árinu. Silja Jóhannesdóttir varð Íslandsmeistari í götuhjólreiðum á árinu og var ásamt Hafdísi Sigurðardóttur valin til þess að keppa fyrir hönd Íslands á Evrópumeistaramótinu í götuhjólreiðum. Akureyrardæturnar fjórar, þær Silja Jóhannesdóttir, Silja Rúnarsdóttir, Hafdís Sigurðardóttir og Freydís Heba Konráðsdóttir tóku þá þátt í hjólreiðakeppninni PostNord U6 Cycle Tour í Svíþjóð. Þá sópuðu þær að sér allskyns fleiri verðlaunum í hjólreiðakeppnum yfir árið.

Sjá einnig: Akureyrardætur stóðu sig vel í Svíþjóð

Sjá einnig: „Hreint ótrúlegt hversu öflugt hjólreiðafólk er að finna á Akureyri“


Hver er manneskja ársins að þínu mati?

Sambíó

UMMÆLI