Laugardaginn 4. desember verður opnuð sýning Jónínu Mjallar Þormóðsdóttur, Kyrrð, í Mjólkurbúðinni í Listagilinu. Þar sýnir Jónína Mjöll ný verk sem unnin eru úr hvítum fjöðrum og sýna mýkt og hreinleika. Jónína leitar fanga í íslenskri náttúru og eru verk sýningarinnar innblásin af henni. Þegar rýnt er í verkin má þar greina hverfulleika, endurspeglun og smæð manneskjunnar, en jafnframt kærleika og viðkvæmni lífsins.
Jónína Mjöll hefur verið búsett í Þýskalandi síðastliðin 30 ár þar sem hún starfar sem myndlistarmaður og myndmeðferðarfræðingur. Hún útskrifaðist með meistaragráðu í myndlist frá University of the Arts í Bremen 2017 og hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum m.a. í Bremen, Berlín, Bonn, Hanoi, Nagoya, Osterholz-Scharmbeck, Akureyri og Keflavík.
Sýningin stendur til og með 12. desember og verður opin alla daga kl. 12-18.
UMMÆLI