Akureyringurinn Brynjar Steinn Gylfason, betur þekktur sem Binni Glee, ætlar að eyða jólunum á Akureyri í ár. Brynjar er mikið jólabarn en hann ræddi jólin, flutninga til Reykjavíkur og frægðina í viðtali við Smartland í Morgunblaðinu í dag.
„Ég ætla heim á Akureyri og verja jólunum með fjölskyldunni. Það er svo dásamlegt, ég er vanalega að stússa við að kaupa gjafir á Þorláksmessu, fer í jólahúsið og á fleiri staði, síðan sef ég út á aðfangadag jóla. Það er svo mikil stemning á Akureyri á jólunum,“ segir Brynjar í Morgunblaðinu.
„Það er svo langt síðan ég keyrði bílinn minn síðast að ég get ekki beðið eftir að fara að keyra í snjónum á Akureyri. Ég bara elska að keyra um og skoða jólaskrautið, ljósin og bara skoða Akureyri alla, sem er svo mikill jólabær.“
Brynjar sem hefur öðlast töluverða frægð í gegnum samfélagsmiðla og nýlega sjónvarp flutti til Reykjavíkur í maí á þessu ári. Hann taldi mikilvægt að flytja í höfuðborgina til að vera nær þeim sem hann vinnur fyrir.
„Fólkið á Akureyri er svo gott og það er þægilegt að vera þar en þegar maður er orðinn svona stór stjarna á samfélagsmiðlum verður maður að vera hér í bænum,“ segir Binni Glee en ítarlegt viðtal við hann má finna í Morgunblaðinu og á mbl.is með því að smella hér.
UMMÆLI