„Norðmenn kenndu okkur ýmsar aðferðir við vetrarhernað, mæla hæð fjallanna og slíka hluti. Skíðin voru ósköp látlaus og venjuleg. Við notuðum bara það sem okkur var fengið, notuð skíði frá almenningi í Englandi og ekki í miklu magni. Svo vorum við með norskar og kanadískar snjóþrúgur. Já, þetta var mikil þjálfun og mikil leiðindi. Ég meina, það er ekkert leiðinlegra en eyða nótt saman gamlir karlar á norðurhjara veraldar, í loftlausum bragga sem maður þurfti að grafa sig út úr á hverjum morgni því það hafði snjóað svo mikið um nóttina. Já, þetta var ekki einfalt. Eitt var það sem einkenndi Ísland á þessum árum, ekki kannski það skemmtilegasta en fullkomlega eðlilegt, en það var fiskilyktin sem var alls staðar. Ef þú fórst í leigubíl þá fannstu fiskilykt. Því allir Íslendingar borða mikinn fisk. Og þeir taka fisk fram yfir allt annað. Ef maður fór inn á heimili fólks þá var það þannig að eftir því sem heimilið var þrifalegra, þeim mun meiri fiskilykt. Það var vegna þess að olíurnar sem þeir báru á húsgögnin sín voru fiskiolíur. Og ekki var minni lyktin úti í garði þar sem þeir hengdu upp fisk til þerris. Til að toppa þetta þá báru bændur skemmdan fisk á túnin sín. Það snérist allt um fisk.“
„Þetta var eiginlega alveg yndislegt. Ég var upp í fjalli við æfingar í vetrarhernaði, með herdeildinni minni. Við vorum ákaflega vel á okkur komnir líkamlega, hlaupandi um í fjöllunum, þegar birtist okkur þessi dásamlega sýn í firðinum langt fyrir neðan þar sem við vorum staddir. Stórt herskip með tveimur reykháfum sigldi virðulega inn fjörðinn í átt að Akureyri. Um borð í skipinu var stór hópur amerískra hermanna. Þeir komu og tóku við kampinum okkar og 2-3 dögum síðar vorum við komnir um borð í skipið, á leið heim til Englands. Þetta var líflegur hópur bandarískra hermanna. Það virtist engin stjórn vera á því sem þeir voru að gera, þeir voru ekki með nauðsynjar eins og sápu eða klósettpappír. Þeir höfðu enga bílstjóra til að taka við þeim fjórum farartækjum sem við höfðum yfir að ráða. Einhver heyrði einn ameríska foringjann öskra yfir hópinn í einni marseringunni „strákar, við tökum við fjórum farartækjum af Bretunum, þremur breyttum bílum og einum jeppa. Kann einhver ykkar að keyra?“ Og enginn kunni það. „Vill einhver ykkar keyra?“ Þá fóru fjórar eða fimm hendur á loft. Svona var ástandið á þeim þegar við yfirgáfum Akureyri.“
Svona hljóma brot úr frásögnum tveggja breskra setuliðsmanna sem gegndu herþjónustu á Íslandi á stríðsárunum. Þeir voru í Hallamshires-herdeildinni frá Sheffield. Annar tók þátt í hættulegum fjallaleiðangri til að finna týnda setuliðsmenn áður en hann yfirgaf höfuðstað Norðurlands. Hinn varð heimsfrægur í listgrein sinni sjö árum eftir dvölina á Akureyri. Báðir voru sendir til Frakklands þar sem þeir tóku þátt í innrásinni í Normandí 6. júní 1944. Þar voru þeir lykilmenn í einni örlagaríkustu aðgerð innrásarinnar. Þeir segja frá dvölinni á Akureyri í nýjum þætti af Leyndardómum Hlíðarfjalls sem fara í loftið í nóvember. Þættirnir eru samstarfsverkefni Sagnalistar og Grenndargralsins.
Heimild: Grenndargralið
UMMÆLI