Gæludýr.is

Fylgifiskar mannfólksins

Fylgifiskar mannfólksins

Tinna Steindórsdóttir skrifar:

Ég elska ketti. Ég elska fugla. Ég elska reyndar bara dýr almennt (ekki sérlega hrifin af geitungum samt) og finnst þau stórmerkileg og áhugaverð. Ég er alin upp við að þekkja lífríkið í kringum mig og fuglar Íslands eru langvarandi áhugamál hjá mér og börnunum mínum.

Fyrir 2 ára afmælið hafa þau t.d. öll verið komin með okkar helstu fugla á hreint. Við gefum fuglunum að borða á veturna, þekkjum venjur þeirra, hljóð, unga og egg og okkur finnst þeir bara æðislegir.Ég er líka kattaeigandi. Kattaeigandi sem er alinn upp af fólki sem hatar ketti. Meðal annars vegna þess að þeir veiða fugla og skíta í eplalundinn hans pabba.

Mér finnst skelfilega leiðinlegt þegar kettirnir mínir draga björg í bú og skilja stoltir eftir músarassa à forstofugólfinu eða lemstraða, dauðhrædda fugla við þröskuldinn à svefnherberginu mínu fyrir mig til að finna. Þá langar mig svolítið að gefa þá. Í smá stund. En kettirnir mínir eru kettir, og kettir veiða og þannig er nú það. Maður getur gert ýmsar ráðstafanir til þess að lágmarka skaðann og það gerir maður eftir bestu getu.

En eftir sem áður, þá eru þetta bara dýr að fylgja eðlishvötinni sinni. Það að hópur fólks í forystu eins stærsta sveitarfélags landsins setjist niður og ákveði lög um að banna lausagöngu heimiliskatta hlýtur í besta falli að vera einhvers konar brenglað aprílgabb, því fólk í svona ábyrgðarhlutverki hlýtur að vera þokkalega upplýst um helstu staðreyndir lífsins, samhengi hlutanna og vonandi ágætlega raunsætt, haldandi um stjórntaumana í samfélagi sem telur tæplega 20.000 manns.

Það að fuglafræðingur, sem í grunninn hlýtur þá að vera líffræðingur, komi opinberlega fram og setji fram þá staðhæfingu að „Það [sé] ekki hægt að hafa þessi kvik­indi vals­andi út um allt…” missir í mínum huga stöðu sína sem “authority” í fagi sínu með því að horfa ekki á ÖLL dýr frá hlutlausum sjónarhóli fræðimannsins.

Ég er svo vonsvikin yfir þessum yfirlýsingum Jóhanns Óla (sjá viðhengi) að ég íhuga satt að segja að taka minn kæra og vel metna fuglavísi, af hverjum hann er höfundur, setja hann í umslag og senda honum hann hið snarasta í pósti með kröfu um endurgreiðslu. Auðvitað hafa allir sínar skoðanir, en ég geri bara ríkari kröfu til útgefinna fræðimanna en svo að þeir leyfi sér að tjá sig svona um málefni sem tengist þeirra fræðigrein, eins og Jóhann Óli gerir hér í þessu viðtali. Að setja bann á lausagöngu katta er álíka galið og að banna fuglaumferð yfir þéttbýli til að losna við að fá drit á bílrúður eða holugröft hagamúsa í grænmetisbeðum til þess að passa upp á heimaræktaðar gulrætur og grænkál. Já eða t.d. banna silfurskottur í niðurföllum, lýs í hári eða njálg í rössum.

Dýr sem okkur finnst vera okkur til ama en eru fylgifiskar okkar mannfólksins hvort sem okkur líkar betur eða verr. Kettir eru kettir, fuglar eru fuglar, lýs eru lýs og manneskjur eru manneskjur. Það liggur í hlutarins eðli, að eðlinu sem í dýrunum býr, eðli málsins samkvæmt, verður ekki breytt með einhverri bókun á bæjarskrifstofu í Akureyrarbæ.

Staðreyndirnar, samhengið og allt það sem ég nefndi hér að ofan er að frá örófi alda hefur þetta dýr, heimiliskötturinn, felis catus, fylgt okkur mannkyninu og aðlagast okkur og við þeim að þeim punkti að sérstök kattartegund varð til. Dýrategund sem fjölgar sér, veiðir, sleikir á sér rassinn, merkir sér svæði og ýmislegt fleira sem er í dýrseðli þeirra að gera, ásamt því góðir hálsar, að deila híbýlum mannfólks.

Maður þarf ekki að vera dýrafræðingur til þess að átta sig á þessu. Maður þarf hins vegar að vera EKKI fúll tuðari í kommentakerfum sem myndar sér skoðun út frá eigins razzi til þess að geta séð þetta allt saman í eðlilegu samhengi, og svo þarf maður að vera raunsæismanneskja í ofanálag til þess að átta sig á og sætta sig við staðreyndir lífsins, hvað svosum manni kann að finnast um þær.

Við getum ekki, mörgum öldum síðar, ákveðið að afheimilsvæða ketti og útrýma þeim úr þéttbýlum manna frekar en við getum bannað fávísum að rausa á kommentakerfum eða óumburðarlyndum að bjóða sig fram í bæjarpólitík. Því svona er þetta víst bara heillirnar og við þurfum öll að lifa með því.

En þessa hluti þurfti ég samt bara aðeins að „segja upphátt“. Afsakið það bara. Friður á láði og legi og verið kind, alltaf.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó