Framsókn

Freyvangsleikhúsið setur á svið nýtt íslenskt leikverk

Freyvangsleikhúsið setur á svið nýtt íslenskt leikverk

Vorið 2019 var Freyvangsleikhúsið með handritasamkeppni og fèkk stjórnin nokkur handrit send til sín undir dulnefnum. Tekin var ákvörðun um að setja á svið verkið Smán og á daginn kom að verkið var eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur. Það átti svo að setja upp verkið haustið 2020 en ástand í samfèlaginu gerði það að verkum að það frestaðist þangað til núna. Sindri Swan var fenginn til að leikstýra og æfingar hófust í haust.

Sindri og Sigríður Lára eru búin að vinna saman að því að stílesera og útfæra verkið svo útkoman verði sem glæsilegust. Að verkinu kemur svo stór hópur af fólki til þess að gera þetta allt að raunveruleika því að sjálfsögðu þarf leikarahóp, hönnuði, smiði, tæknifólk og alla aðra sem gera frábæra sýningu.

Smán gerist á  kaffihúsi og bar á Norðurlandi um aldamótin 2000. Þar halda til nokkrar ólíkar manneskjur. Verkið gerist á einni helgi og þarna á mörkum einkarýmis og almannafæris fáum við að fylgjast með hvernig líf þessa fólks fléttast saman á mismunandi vegu. Einnig rekast inn á barinn ýmsar persónur sem gæða staðinn lífi. Samhliða því fylgjumst við með Marbellu þar sem hún gerir upp fortíðina í sínum eigin hugarheimi.

Allar eru persónurnar á einhvers konar flótta undan lífinu eða bara sjálfum sér og sumum verður tíðrætt um að fara eitthvað annað … eða vita jafnvel ekki hvort þau eru að koma eða fara, hvað þá hvert.

Sindi Swan útskrifaðist sem leikari og leikstjóri frá KADA í London árið 2014. Hann hefur komið fram bæði á kvikmyndasettum og á leiksviðum í Bretlandi en hefur í seinni tíð beitt athygli sinni að leikstjórn og myndatöku. Hann hefur meðal annars komið fram sem Dr. Colthurst í sjónvarpskvikmynd  um Díönu prinsessu, lesið inn á sýningu hjá National Theatre í London og meðal annars staðið inn fyrir Matthew Goode á The crown. Yfir árin hefur hann leikstýrt ýmsum stuttmyndum sem og tekið upp myndbandsefni sem stjörnur á borð við Gerald Butler og Zendaya hafa verið í.

Til gamans má geta að Sindri Swan er fyrrum Freyvangsleikari og tók hann þátt í sýningu í Freyvangsleikhúsinu á sínum yngri árum.

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir er fædd og uppalin á Egilsstöðum. Hún lærði almenna bókmenntafræði við HÍ og hefur frá 1999 skrifað fjölda leikverka sem hafa verið sett á svið hjá ýmsum leikfélögum, meðal annars Hugleik Í Reykjavík, Leikfélagi Fljótsdalshéraðs og Frú Normu. Hún hefur einnig menntað sig í leikritun í gegnum ýmsa smiðjur og námskeið og var m.a. Valin til þátttöku í samevrópskri höfundasmiðju nýverkahátíðarinnar Bonner Biennale árið 2002. Hún skrifaði ennfremur M.A. ritgerð um formúlur leikritun árið 2004 og hefur síðustu ár unnið að doktorsritgerð um pólitíska sviðslistagjörninga eftir hrun. Verkin hennar hafa í tvígang verið valin athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins af þjóðleikhúsinu. Sigga Lára hefur einnig verið virk í starfi leikfélaga, sem unglingur í leikfélagi Fljótsdalshéraðs og seinna lengst af í Hugleik og starfaði um árabil sem ritari skrifstofu bandalags íslenskra leikfélaga. Síðan  hún fluttist aftur til Egilsstaða árið 2012 hefur hún komið að leikstarfsemi eystra með ýmsum hætti, verið verkefnastjóri sviðslista hjá Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, leikstýrt hjá Leikfélagi Fljótsdalshéraðs og tekið þátt í leiksmiðjuverkefninu Okkar eigið Austurland.

Alheimsfrumsýning er 22.október og miðasala á tix.is og í síma 857-5598

Nánari upplýsingar á fésbókarsíðu Freyvangsleikhússins og á freyvangur.is

VG

UMMÆLI