Helgina 22. og 23. Október n.k verður haldið í fyrsta sinn á Akureyri rokk festivalið Eyrarrokk. Um er að ræða tveggja kvölda tónleikaveislu sem fer fram á tónleikastaðnum Verkstæðinu á Eyrinni góðu. Fram koma 12 hljómsveitir eða 6 hvort kvöldið og er langt síðan slíkur fjöldi hljómsveita sló saman í gigg á Akureyri en það tíðkaðist mjög hér fyrir um 30 árum að hljómsveitir tóku sig saman um tónleikahald. Það þótti því ekki úr vegi að nokkur bandanna sem koma fram nú voru einmitt að koma fram á slíkum tónleikum fyrir um 30 árum og eru enn að hamra járnið við og við.
Að Eyrarrokki standa norðlendingarnir og tónlistarmennirnir Rögnvaldur Rögnvaldsson og Sumarliði Helgason ásamt staðarhaldara Verkstæðisins Helga Gunnlaugssyni, en þeir Rögnvaldur og Sumarliði standa einnig vaktina í hljómsveitinni Lost sem kemur fram á tónleikunum.
Tónleikarnir eru sem fyrr segir föstudaginn 22. Október og laugardaginn 23. Október og koma böndin fram sem hér segir:
Föstudagskvöld: Leður, Chernobyl Jazz Club, Lost, Tvö Dónaleg Haust, Dr. Gunni & hljómsveit, Fræbbblarnir.
Laugardagskvöld: Biggi Maus, DDT Skordýraeitur, Dúkkulísurnar, Helgi & Hljóðfæraleikararnir, Langi Seli & Skuggarnir, Elín Helena.
Miðasala er á www.tix.is og verður einnig á staðnum á tónleikahelginni.
UMMÆLI