Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er kominn í smitgát eftir heimsókn sína á Norðurland í síðustu viku. Fjöldi barna hefur greinst með Covid undanfarna daga á svæðinu.
Í þeim hópi eru nemendur úr Valsárskóla á Svalbarðsströnd sem Guðni heimsótti síðasta miðvikudag. Hann þarf því að vera í smitgát næstu daga.
„Ég sendi krökkunum nyrðra hlýjar kveðjur, þakka aftur fyrir góðar móttökur og óska þeim, sem hafa smitast af veirunni, góðs bata. Einhverjum fundum og viðburðum þarf ég að fresta en við finnum lausnir á því,“ skrifar forsetinn á Facebook síðu sinni.
Hátt í 1200 manns eru í sóttkví á Norðurlandi eystra vegna hópsmita sem hafa komið upp í grunnskólum í Eyjafirðir. 82 einstaklingar eru í einangrun á svæðinu en flestir finna fyrir vægum eða engum einkennum og enginn liggur inni á sjúkrahúsi.
Valsárskóla hefur verið lokað út vikuna til þess að hefta frekari útbreiðslu.
UMMÆLI