NTC

20 milljóna samningur við Rauða krossinn vegna Frú Ragnheiðar

20 milljóna samningur við Rauða krossinn vegna Frú Ragnheiðar

Sjúkratryggingar Íslands hafa gert 20 milljóna samning við Rauða krossinn á Íslandi um skaðaminnkandi þjónustu fyrir einstaklinga í vímuefnavanda árið 2021. Fjármagnið rennur til skaðaminnkunarverkefnisins Frú Ragnheiðar sem starfar á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Akureyri.

Frú Ragnheiður hefur þann tilgang að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu og bjóða þeim upp á skaðaminnkandi heilbrigðisþjónustu og nálaskiptiþjónustu. „Markmiðið með samningnum er að auka lífsgæði og bæta heilsufar einstaklinga sem nota vímuefni í æð og draga þannig úr alvarlegum afleiðingum þess á borð við alvarlegar sýkingar og dauðsföll. Frú Ragnheiður hefur unnið mikið og gott starf frá því hún tók til starfa árið 2009 og er það okkur sönn ánægja að geta treyst rekstrargrundvöll verkefnisins með þessum stuðningi,“ segir Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. „Heimsóknir til Frú Ragnheiðar eru hátt í fimmta þúsund á ári hverju og það er til mikils að vinna að ná til þessa viðkvæma hóps.“

Heilbrigðisþjónusta Frú Ragnheiðar veitir meðal annars nálaskiptiþjónustu, aðhlynningu sára, sýklalyfjameðferð, umbúðaskipti, saumatöku og almenna heilsufarsskoðun og ráðgjöf. Á hverri vakt starfar hjúkrunarfræðingur og læknir sem sinnir bakvakt.

Sambíó

UMMÆLI