NTC

Unglingar, fjölskyldan og tómstundir

Unglingar, fjölskyldan og tómstundir

Forvarna- og félagsmálaráðgjafar Akureyrarbæjar skrifa:

Unglingar eru sem heild dásamlega skemmtilegur og fjölbreyttur hópur. Frá örófi alda hefur fólk haft misjafnar skoðanir á þessu tímabili í lífi ungmenna þegar þau eru að fara úr því að vera börn og að verða fullorðin. Síðustu áratugina hefur þessi “aðlögunar” tími lengst, þau fá lengur að vera börn og leika sér við bæði vini og fjölskyldur áður en alvara lífsins tekur við.

En í hvað ættu þau að verja þessum tíma?  

Samkvæmt skýrslu forvarnardagsins 2020 á vegum Rannsóknar og greiningar, “Þetta vilja þau” sem byggir á svörum unglinga í 9. bekk um allt land, vilja þau helst af öllu vera hluti af hóp. Þeir hópar eru í megindráttum fjölskyldan annars vegar og tómstundaiðkun hins vegar.  

Þegar kemur að óskum þeirra um samveru með fjölskyldunni er ekki hægt að segja að þau séu að biðja um mikið annað og flóknara en tíma. Í augum fullorðna fólksins getur það vissulega virst stór bón þegar tími er oft af skornum skammti og í mörg horn að líta en þá þarf að muna að samveru með börnunum ætti að forgangsraða ofarlega á listanum. Hugmyndir unglinganna að samveru eru að spila saman, horfa á bíómynd, fara í sund, borða, elda og baka saman. Snjalltæki geta haft truflandi áhrif á samverustundir og telja unglingarnir að það ætti helst að taka frá tíma þar sem enginn er í síma eða tölvu. Fjölskyldan er nefnilega ekki að horfa saman á bíómynd ef einhver er alltaf í símanum á sama tíma. Unglingarnir telja heilt yfir að það sé mikilvægt að verja tíma með fjölskyldunni, fyrst og fremst að geta sest niður saman að spjalla um daginn og veginn.

Tómstundaiðkun

Íþróttir og aðrar tómstundir skipa stóran sess í lífi flestra barna. Fjöldi barna á Akureyri sem nýtir sér frístundaávísun bæjarins árið 2020 voru 2630 börn. Meiri hluti þeirra er nýttur til að greiða niður íþróttaiðkun og þar af eru 76,6% þeirra hjá fjórum stærstu íþróttafélögum bæjarins.  

Um 87% barna á aldrinum 6-13 ára á Akureyri eru því að nýta frítíma sinn í uppbyggilega tómstund, og lang flest í skipulögðu íþróttastarfi. Það er frábær árangur og telst einstakur á alþjóðavísu. Flest eru þeir í svokölluðum hópíþróttum, fótbolta, handbolta, fimleikum og dans. Í fyrstu er áhersla á að læra að fara að fyrirmælum og taka tillit til annarra. Kröfurnar aukast jafnt og þétt samfara aukinni hæfni, leikni og styrk. Hins vegar má sjá að hlutfall nýtingar á frístundastyrk fer minnkandi með aldrinum og því mun færri unglingar sem eru í skipulögðu tómstundarstarfi en yngri börnin. Þátttaka unglinga á aldrinum 14-15 ára er þá komin niður í 78% og aðeins 54% unglinga á aldrinum 16-17 ára taka þátt í skipulagðri tómstund sem er greidd niður með frístundaávísun bæjarins.

Hvað vilja þau?

Samkvæmt áðurnefndri rannsókn meðal unglinga í 9. bekk má sjá að félagsskapurinn spilar mjög stóran þátt sem ástæða fyrir þátttöku þeirra í tómstundastarfi, íþróttum sem og öðrum. Þeim finnst gott að geta komist út og hitt vini og aðra jafnaldra. Það komi í veg fyrir endalausa skjánotkun. Þau sjá kosti þess að hreyfa sig og lifa heilbrigðum lífstíl. Þeim finnst einnig gaman að sjá árgangur vinnu sinnar og mörgum þeirra finnst gaman að skara framúr í einhverju.

Minnkuð þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi á unglingsaldri hefur meðal annars verið tengd við tímaskort og áhugaleysi en einnig hefur verið nefnt að keppnis- og afreksstefna félaganna stuðli að brottfalli. Það er því umhugsunarvert hvort skoða eigi áherslur íþróttafélaganna fyrir þennan aldur.  

Á unglingsaldri byrja oft aukaæfingar og í þegar þéttri dagskrá er oft aðeins hægt að finna aukatíma á morgnana, fyrir skóla. Sumir unglinganna okkar eru því að vakna fyrir allar aldir, fara á æfingu, mæta í skóla, taka jafnvel þátt í íþróttatíma þar og mæta svo aftur á æfingu. Þá er oft eftir heimalærdómur, samvera með fjölskyldu og vinum og svefn en líklega nýtist tími þeirra ekki svo vel því það þarf að sinna skjátímanum. Aðrir unglingar hverfa á sama tíma úr skipulögðum íþróttum og eyða tíma sínum að mestu í tölvu eða síma, í leikjum eða á samskiptamiðlum. Eina hreyfing þeirra verða oftar en ekki skólaíþróttir og fingraþjálfun, á PlayStation fjarstýringunni eða símaskjánum.

Þau vilja vera í hóp. Þau þrá að tilheyra og finna það öryggi sem hópar gefa þeim. Það eykur vellíðan og hvetur þau til dáða. Það er því mikilvægt að missa ekki sjónar af leik og skemmtun og að hafa alla með. Bumbubolti þarf ekki bara að vera fyrir fullorðið fólk.


Vilt þú birta grein á Kaffið.is? Sendu á okkur með því að smella hér

VG

UMMÆLI