NTC

Sofðu á því

Sofðu á því

Hver kannast ekki við það að vakna og vera uppgefinn eftir nóttina? Manni var að dreyma svo margt og mikið en oft man maður hins vegar ekki hvað það var. Draumar eru ótrúlega sérkennilegt fyrirbæri og getur verið gaman að spá í það hvað þeir tákna. Og sömuleiðis að skoða hver tilgangur þeirra er. Af hverju dreymir okkur?

Ýmsar vísindalegar rannsóknir hafa verið gerðar á draumum og höfum við færst aðeins nær svarinu um af hverju okkur dreymir. Á hverri nóttu förum við í gegnum nokkur svefnstig og það er í REM svefni (rapid eye movement) þar sem okkur dreymir. Þá verða vöðvar líkamans alveg slakir og lokast fyrir noradrenalín í heilanum en það er streituhormón. Ákveðnar stöðvar í heilanum verða virkar þegar okkur dreymir á meðan aðrar leggja niður starfsemi sína. Til dæmis eru svæði óvirk sem stjórna rökhugsun á meðan örvun verður á svæðum sem stjórna sjónskynjun, hreyfingu, tilfinningu og minnningum. Draumar endurtaka ekki beint athafnir okkar heldur tengjast frekar tilfinningalífi okkar. Það er, hvernig við upplifðum ákveðna atburði.

Draumar hafa í rauninni endurhæfingaráhrif. Með því að dreyma erum við að vinna úr upplýsingum, efla sköpunarkraft og leysa þrautir. Í draumasvefni græðum við tilfinningaleg sár og endurvinnum erfiðar minningar. Þess vegna er mikið vit í því þegar einhver segir þér að ,,sofa á því”. Á nóttunni í draumasvefni er nefninlega ákveðin úrvinnsla á því sem er í gangi í lífi þínu.

Þó að okkur finnist oft að okkur dreymi algjöra vitleysu þá er draumasvefninn mikilvægt úrvinnsluferli. Við verðum fyrir miklu áreiti yfir daginn á meðan við vökum og heilinn þarf að vinna úr öllu því sem hann sér, heyrir og skynjar. Nóttin er tími til að hlaða líkama og sál. Gera okkur tilbúin fyrir næsta dag svo við getum tekist á við hann með stæl.

*Don’t chase your dreams, catch your dreams*


Vilt þú birta grein á Kaffið.is? Sendu á okkur með því að smella hér

VG

UMMÆLI