Bifreiðastöð Oddeyrar mun þurfa að víkja af lóð sinni í miðbæ Akureyrar fyrir 1. apríl á næsta ári. Þetta var ákveðið á fundi bæjarráðs Akureyrar í gær.
Ekki er gert ráð fyrir leigubílastöð BSO í miðbæ Akureyrar í nýju miðbæjarskipulagi bæjarins en leigubílstjórar á Akureyri vilja vera áfram í húsinu sem var tekið í notkun fyrir rúmum 65 árum, þann 16. febrúar árið 1956.
„Við viljum alls ekki fara. Við erum á stað sem er búinn að sýna það og sanna síðastliðin 65 ár, sem þetta hús er búið að vera, að það hafi menningarlegt gildi fyrir marga Akureyringa sem koma hingað daglega. Eins er það mikilvægt fyrir næturlífið,“ segir Margrét Elísabet Imsland Andrésardóttir, framkvæmdastjóri BSO, um ákvörðunina í samtali við Morgunblaðið.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrar, segir í samtali við Morgunblaðið að vonir standi til að húsnæði finnist í miðbænum þar sem BSO geti haldið áfram rekstri sjoppu og leigubílaþjónustu. Hann segir að einhugur hafi verið um málið innan bæjarráðs.
Í vor var rætt við Hönnu Rósu Sveinsdóttur, sérfræðing á Minjasafninu á Akureyri í fréttum RÚV en hún telur eftirsjá af húsinu sem hefur verið stór hluti af bæjarmynd Akureyrar og bæjarbragnum.
„Varðveislugildi hússins má segja að sé fyrst og fremst fólgið í menningarsögu þess og tengsl þess við sögu bæjarins. Bæði atvinnusöguna og þeirra bílstjóra sem voru hér og voru hér í tugatali þegar mest var. Og svo náttúrulega bara hluti af bæjarbragnum,“ segir hún.
UMMÆLI