Framsókn

Spurt og svarað um Bitcoin

Spurt og svarað um Bitcoin

Víkingur Hauksson skrifar

Hvað er Bitcoin?
Gull er peningur sem er góður í því að flytja verðmæti yfir tíma. Valdboðsgjaldmiðlar, þ.e. pappír ríkisstjórna líkt og krónur, dollarar ofl., er peningur sem er góður í því að flytja verðmæti yfir rúm. Bitcoin er peningur sem er góður, og í raun betri, í hvoru tveggja. Hann er jafnt og þétt að verða sjaldgæfari en gull og verður að lokum í endanlegu magni, líkt og tíminn sjálfur. Ólíkt valdboðsgjaldmiðlum þá er síðan hægt að senda hann hvert sem er í heiminum, hvenær sem er sólarhringsins, á augabragði.

Peningastefna Bitcoin

Er Bitcoin píramídasvindl?
Píramídasvindl er kerfi þar sem menn hagnast í samræmi við hversu ofarlega þeir eru í kerfinu. Bitcoin hefur alla tíð verið algjörlega flatt kerfi; enginn einn hefur meiri fríðindi en annar innan kerfisins og allir hafa sömu reglum að lúta óháð því hvenær þeir byrjuðu að nota það. Vissulega hafa einhverjir hagnast á því að hafa byrjað snemma að nota kerfið en því má ekki rugla saman við það hvernig kerfið sjálft er uppsett, því sú staðreynd á hreinlega við um allar nýjungar í heiminum; því fyrr sem maður tileinkar sér þær, með meiri áhættu fyrir vikið, því líklegra er að maður hagnist á þeim.
Bankakerfið sem við höfum í dag kemst hinsvegar nær því að vera píramídasvindl; þar sem þeir sem eru hærra settir í samfélaginu, þ.e. þeir sem eiga eignir, hagnast á sífellt vaxandi peningamagni í umferð því eignir þeirra verða meira virði í peningum talið, þ.e. “Cantillon effect”. Hinsvegar tapa þeir sem eru lægra settir í samfélaginu, þ.e. þeir sem eiga engar eignir, því það litla sparifé sem þeir eiga verður minna virði. Auðveldlega framleiddu valdboðsgjaldmiðlarnir sem við höfum í bankakerfinu í dag eru ástæðan fyrir því að mismunurinn í samfélaginu er alltaf að aukast.

Hvernig enduðum við með valdboðsgjaldmiðla?
Til þess að svara þessari spurningu þurfum við að líta aðeins til peningasögunnar.
Gull hefur í gegnum tíðina, í einhver 5000 ár eða svo, verið alheimsgjaldmiðillinn. Það var einfaldlega besti peningurinn vegna þess að það var sjaldgæfast (fyrir tíð Bitcoin). Það er nær óeyðanlegt, svo að næstum því hvert einasta gramm sem hefur verið grafið upp í gegnum tíðina er enn til í dag. Það krefst mikils tíma og orku að grafa það upp, svo það litla viðbótarmagn sem kemur inn á markaðinn bætir ekki miklu við þær birgðir sem nú þegar eru til. Því var lógískt að geyma verðmætin sín í gulli, þar sem þú gast verið viss um að árlegt nýtt magn sem var grafið upp hafði ekki mikil áhrif á verðið.
Hinsvegar hefur gull þann stóra galla að það er þungt og erfitt er að skipta því mikið niður, og það virkar því illa sem greiðslumiðill. Fyrir um 500 árum síðan leystu ríkisstjórnir loks þetta vandamál með því að geyma gullið og gefa út seðla sem voru innleysanlegir fyrir gull. Seðlarnir eru léttir og auðvelt er að eiga viðskipti með þá svo allt lék í lyndi.
Fyrir um 100 árum síðan fóru ríkisstjórnir þó, til þess að fjármagna stríð og fleira, að framleiða fleiri seðla en þær gátu stutt með gullforða sínum. Á endanum var hlutfallið orðið það skekkt að það þýddi ekkert annað en að afturkalla innleysanleika seðla fyrir gull, og þar með enduðum við með valdboðsgjaldmiðlana sem við höfum í dag. Þeir eru ekki studdir af neinu nema trausti á viðkomandi ríkisstjórn og kostnaðurinn við að auka magn þeirra í umferð er nær enginn.

Ört fallandi virði sterkasta valdboðsgjaldmiðils heims

Er Bitcoin ekki bara fyrir eiturlyfjasala og glæpamenn?
Glæpamenn nota jú sumir hverjir Bitcoin fyrir sín athæfi, en þeir nota líka internetið, bíla, síma og fleira sem almenningur notar einnig. Þetta er gömul mýta og það hefur sýnt sig að mun fleira ólöglegt á sér stað innan bankakerfisins sem við höfum í dag (https://www.forbes.com/sites/haileylennon/2021/01/19/the-false-narrative-of-bitcoins-role-in-illicit-activity/?sh=658389c53432).

Ef Bitcoin heldur áfram að vaxa, mun það ekki klára allt rafmagn í heiminum?
Þessari spurningu er gott að svara í liðum:

  1. Magn rafmagns í heiminum er ekki endanlegt (aftur, ekki frekar en nokkur önnur auðlind fyrir utan Bitcoin og tímann sjálfan, ef út í það er farið).
  2. Bankakerfið sem við höfum í dag notar talsvert meira rafmagn en Bitcoin (https://cointelegraph.com/news/banking-system-consumes-two-times-more-energy-than-bitcoin-research) og þá er ekki einu sinni talin með rafmagnsnotkun Bandaríkjahers, því hvað tryggir virði valdboðsgjaldmiðla, ef ekki her?
  3. Rafmagnsnotkunin stafar aðallega af útgáfu nýrra Bitcoina, sem fer minnkandi með tímanum, ekki af fjölda færsla innan kerfisins (https://www.coindesk.com/frustrating-maddening-all-consuming-bitcoin-energy-debate).
  4. Ekki nóg með það að Bitcoin noti að stórum hluta endurnýjanlega orku (https://www.livemint.com/market/cryptocurrency/use-of-green-energy-in-bitcoin-mining-jumped-to-56-in-june-quarter-report-11625212165534.html) heldur ýtir það í grunninn undir notkun á slíkri orku því hún er ódýrari og hagnaðurinn því meiri fyrir viðkomandi.
  5. Einn lokapunktur hvað umhverfismál varðar. Bankakerfið sem við höfum í dag ýtir í grunninn undir neysluhyggju sem er slæm fyrir umhverfið. Vegna sífellt vaxandi peningamagns í umferð minnkar nefnilega virði sparnaðar með tímanum og er því betra að eyða peningum sem fyrst. Í tilfelli Bitcoin er þessu hinsvegar öfugt farið því vegna minnkandi útgáfu nýrra Bitcoina eykst virði Bitcoin með tímanum. Bitcoin ýtir því undir sparnað og nægjusemi sem er góð fyrir umhverfið.

Er Bitcoin ekki of sveiflukennt til þess að vera peningur?
Einn mikilvægasti eiginleiki penings er að vera áreiðanleg verðmætageymsla (“store of value”) og er peningur ekki notaður sem greiðslumiðill nema hann sé einhvers virði. Bitcoin er í þeim fasa núna að verða áreiðanleg verðmætageymsla. Markaðurinn er ennþá lítill og sveiflurnar því miklar. Markaðurinn fer hinsvegar stækkandi með tímanum og sveiflurnar þar af leiðandi minnkandi. Þegar Bitcoin er orðið áreiðanleg verðmætageymsla um allan heim verða sveiflurnar litlar og þá fyrst fer að verða lógískt að nota það sem greiðslumiðil. Það að nýr peningur geti sveiflulaust orðið að alheimsgjaldmiðli er ákveðin veruleikafirring.

Peningavæðing Bitcoin

Bitcoin er alltof hægt til að ráða við allar færslur heimsins, er það ekki?Bitcoin snýst ekki aðallega, eins og margir halda, um að geta farið út í búð og keypt kaffi fyrir það. Visa kortin okkar virka alveg nógu vel í þeim tilgangi. Vandamálið við peninginn sem við höfum í dag er hinsvegar það að hann heldur ekki virði sínu til lengri tíma. Það er ástæðan fyrir því að fólk þarf í dag, ásamt sinni aðal vinnu, einnig að gerast fjárfestar til þess eins að missa ekki kaupmátt sinn. Bitcoin leysir þetta vandamál nú í dag. Að því sögðu þá er Bitcoin einnig í stöðugri þróun og það er bara tímaspursmál þangað til að það ræður við fleiri færslur en Visa, þó það sé ekki aðalmálið. Fyrir um 20 árum tók það mig nokkra heila daga að sækja eina bíómynd á netið (brotið er fyrnt í dag), athöfn sem mér hefur verið sagt að taki einungis nokkrar mínútur eða jafnvel sekúndur í dag. Fólki hættir oft til að dæma framtíðina út frá nútíðinni.

Árið 1990

Ef Bitcoin nær einhverjum vinsældum þá slökkva stjórnvöld bara á því, er það ekki?
Bitcoin kerfið er “decentralized”, þ.e. það stjórnast af notendum þess sem dreifðir eru um allan heim, og því er enginn einn haus til að höggva af. Til þess að slökkva á Bitcoin þyrfti annað hvort að finna og slökkva á því á yfir 100.000 stöðum víðsvegar um heiminn, sem er vægast sagt ógerlegt, eða að slökkva endanlega á internetinu í heild sinni. Vissulega geta stjórnvöld bannað Bitcoin, þó það sé svo reyndar annað mál hvort þau geti framfylgt banninu, en til þess að það bæri mögulega einhvern árangur þyrfti það að gerast á alheimsvísu. Það er mjög ólíklegt því að um leið og einhver ríki banna, er það freistandi fyrir önnur ríki að opna dyrnar og draga að sér kapítal frá þeim ríkjum sem bönnuðu. Mörg ríki eru líka nú þegar vingjarnleg í garð Bitcoin svo sem Portúgal, Sviss, Þýskaland og fleiri, svo ég tali nú ekki um El Salvador sem var fyrsta ríkið, og ekki það síðasta, til að skilgreina Bitcoin sem lögeyri. Stjórnvöld geta í raun ekki bannað Bitcoin, en þau geta hinsvegar bannað sig frá Bitcoin.

Bitcoin teygir anga sína um allan heim

Hvað stoppar Bitcoin í að vera “Myspace rafmyntanna”?
Þessari spurningu er gott að svara í liðum:

  1. Þetta er hálf hlægilegur samanburður þar sem Myspace var í sínum hæstu hæðum 12 milljarða dollara virði á meðan Bitcoin er núna, þegar þessi orð eru skrifuð, um 900 milljarða dollara virði.
  2. Bitcoin er ekki “the next cool app” heldur er það ný samskiptaregla (“protocol”). Líkt og internetið sem samanstendur af samskiptareglum til að skiptast á upplýsingum, þá er Bitcoin samskiptaregla til að skiptast á verðgildi (“value”). Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að þegar samskiptareglur ná rótfestu þá er nær ómögulegt að skipta þeim út (sbr. SMTP samskiptaregluna sem við notum fyrir email í dag og er um 40 ára gömul).
  3. Bitcoin hefur þann kost að hafa verið fyrst. Einnig hefur það 7 netáhrif (“network effects”) sem vinna með því (https://nakamotoinstitute.org/mempool/the-seven-network-effects-of-bitcoin/). Það er hægt að afrita kóðann, en það er ekki hægt að afrita netáhrifin.
  4. Bitcoin hefur bestu forritarana, flestu notendurna, langmesta öryggið og er eina rafmyntin sem getur virkilega kallast “decentralized”, sem er mikilvægasti en oft á sama tíma vanmetnasti eiginleikinn. Mikilvægar reglur líkt og peningastefnan hafa verið eins frá upphafi og verða alltaf eins. Það er vegna þess að til þess að breyta þeim þyrfti að sannfæra meirihluta notenda út um allan heim, þ.e. notendur sem fyrir bestu er að breyta engu slíku. Ethereum, næst stærsta rafmyntin í dag, breytti nýverið peningastefnunni sinni og við það varð Ethereum aðeins sjaldgæfara. Margir halda að við þá breytingu ætti Ethereum að verða eftirsóttara, en það sem þeir átta sig ekki á er að það er ekki peningastefnan sjálf sem skiptir máli heldur er það áreiðanleiki peningastefnunnar. Ethereum missti með þessu allan áreiðanleika, því hvað stoppar fleiri breytingar á peningastefnunni í komandi framtíð? Áreiðanleg peningastefna er eitt það allra mikilvægasta þegar kemur að pening, og hvað það varðar hefur engin önnur rafmynt tærnar þar sem Bitcoin hefur hælana.
  5. Lokapunkturinn og einn sá óljósasti er sá að rafmyntaheimurinn snýst ekki um bestu tæknina. Ef það poppar upp rafmynt með einhverja frábæra nýja tækni, þá getur Bitcoin einfaldlega bætt henni við hjá sér á efri lögum (samskiptareglur eru hannaðar í lögum). Rafmyntir eru fyrst og fremst að keppast sín á milli út frá peningalegum eiginleikum, því ef rafmynt hefur virði, þá erum við jú að tala um einhvers konar pening. Hér er það aftur yfirburðar áreiðanleiki og öryggi Bitcoin sem vegur þyngst og peningasaga mannkyns hefur sýnt okkur að það er aðeins einn yfirburðar sigurvegari á markaðnum fyrir peninga. Af hverju myndi einhver skipta sínum tíma (vinnu) út fyrir næst besta/öruggasta peninginn?
Öryggi (tölvukraftur) Bitcoin vs. Ethereum

Af hverju eru svona margir enn mótfallnir Bitcoin ef þetta er svona augljóst?
Fyrst þegar rafmagnið kom var það lengi vel talið stórhættulegt og til þess eins gott að kveikja í húsum. Sömu sögu var að segja þegar bílarnir fóru að líta dagsins ljós, fólk skellihló að þeirri vitleysu þegar bílarnir festu sig í sífellu á hestastígunum. Þegar internetið var að líta dagsins ljós var það bara bendlað við barnaperra og eiturlyfjasala og þekktir hagfræðingar töldu að með tímanum yrði ljóst að fyrir heiminn hefði það ekkert betra fram að færa heldur en faxtæki. Það væri heldur ekki möguleiki að það gæti skalast og virkað nógu vel fyrir allan heiminn svo mörg fyrirtæki fóru í það að búa til sínar eigin lokuðu útgáfur af internetinu, sem svipar svolítið til gerð annarra rafmynta en Bitcoin nú til dags, og við vitum nú öll hvernig sú saga endaði. Með tímanum fækkar gagnrýnendum og á sama tíma lækkar meðal greindarvísitala þeirra gagnrýnenda sem eftir eru. Þekking og traust tekur einfaldlega tíma að dreifast og er Bitcoin ekkert öðruvísi hvað það varðar.

Hvenær á maður svo að selja?
Þetta snýst ekki um, líkt og venjulegar fjárfestingar nú til dags, að kaupa og selja svo síðar til þess eins að græða fleiri krónur. Þetta snýst um að nota allt annað kerfi í grunninn. Að selja Bitcoin fyrir krónur er eins og að selja rafmagn fyrir kerti. Svo svarið er aldrei; með tímanum muntu ekki þurfa þess, því fyrirtækið sem þú verslar við mun taka við Bitcoin.

Er ég ekki of sein/n?
Þessi klassíska spurning sem hefur komið upp á hverju einasta ári frá upphafi. Allir halda að þeir séu of seinir þegar raunveruleikinn er sá að enginn er of seinn.
Algengur misskilningur er að maður þurfi að kaupa að lágmarki heilt Bitcoin, en raunveruleikinn er sá að hægt er að kaupa eins lítið og maður vill, því 1 Bitcoin er deilanlegt niður í 100.000.000 einingar, kallaðar SATS (Satoshis).
Það sem meira er, er að með Bitcoin getur maður átt beinan hlut í interneti verðgildis (“Internet of Value”), samskiptareglunni sjálfri, og þar af leiðandi einnig óbeint í öllu sem byggt verður ofan á hana. Þetta var/er ekki hægt í interneti upplýsinga (“Internet of Information”), þar getur maður eingöngu átt hlut í því sem ofan á er byggt (Amazon, Google t.d.). Þetta er ein af þeim óljósu hugmyndafræðilegu breytingum sem nýir fjárfestar þurfa að átta sig á til þess að skilja raunverulega stærðargráðu Bitcoin.
Í gegnum tíðina hefur “risk/reward” hlutfall Bitcoin skarað fram úr öðrum fjárfestingum, en það er hlutfall sem ber mögulegan hagnað saman við mögulegt tap. Í tilfelli Bitcoin, þegar þessi orð eru skrifuð, er tapið í mesta lagi 1x en hagnaðurinn enn mögulega 30x-500x (https://www.swanbitcoin.com/am-i-too-late-for-bitcoin/).
Til að setja þetta allt saman í samhengi þá verða aldrei til meira en 21 milljón Bitcoin (það er ein af mikilvægu, óbreytanlegu reglunum) svo meðalmanneskja, miðað við 8 milljarða manns, mun bara eiga um 0.0026 Bitcoin. Aleiga meðalmanneskju fæst því í dag fyrir einungis um 100 dollara eða 12 þúsund krónur.
Valdboðsgjaldmiðlar eru 50 ára gömul tilraun sem er að mistakast, Bitcoin er tæplega 13 ára gömul tilraun sem er að takast.
Ef ég þyrfti að velja á milli eiginhagsmunaseggjanna sem færa okkur kreppur með reglulegu millibili og nördanna sem færðu okkur internetið, þá myndi ég allan daginn velja nördana.
Stafræna byltingin hefur tvo kafla; stafvæðingu (“digitization”) upplýsinga með internetinu, og stafvæðingu verðgildis með Bitcoin. Þetta er “once-in-a-species” bylting og það er dásamlegt að fá að upplifa hana. Eitt stærsta tækifæri lífs þíns er beint fyrir framan nefið á þér.

Takk fyrir að lesa.


Greinin birtist upphaflega á medium.com bloggi Víkings

Vilt þú birta grein á Kaffið.is? Sendu á okkur með því að smella hér

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó