Stuðningsfólk Breiðabliks óskar eftir aðstoð Þórsara í stúkunni í mikilvægum leik gegn KA

Stuðningsfólk Breiðabliks óskar eftir aðstoð Þórsara í stúkunni í mikilvægum leik gegn KA

KA og Breiðablik mætast í mikilvægum leik í Pepsi Max deild karla í fótbolta í dag. Breiðablik og KA eru í baráttu um Evrópusæti og eiga bæði enn séns á Íslandsmeistaratitlinum. Stuðningsfólk Breiðabliks óskaði eftir Þórsurum til þess að mæta í stúkuna og hvetja Breiðablik gegn KA í stuðningshópi Þórs á Facebook.

„Kæru Þórsarar. Við erum nokkrir félagar úr Kópacabana, stuðningsmannasveit Breiðabliks. Á morgun mæta Blikarnir á Greifavöllinn að keppa við KA. Það er allt undir hjá Blikum í titilbaráttunni og evrópubaráttu hjá KA. Við í Kópacabana óskum eftir liðsstyrk frá grjóthörðum Þórsurum við að tralla með okkur á leiknum. Fyrir vonandi jákvæð viðbrögð, ætlum við í staðinn að smala í amk eitt borð á næsta herrakvöldi Þórs. Sendið okkur pm ef þið hafið áhuga. Með vinsemd og virðingu,“ skrifaði stuðningsmaður Breiðabliks á Facebook grúppu Þórsara.

Þórsarar virtust þó ekki hrifnir af þessari bón ef mark er tekið á ummælum við færsluna. Flestir voru á því að Þórsarar ættu frekar að styðja við bakið á KA mönnum í leiknum til þess að fá lið frá Akureyri í Evrópukeppni. Það væri gott fyrir bæinn.

Einhverjir voru ekki sammála því að það þyrfti endilega að styðja KA í leiknum en það væri þó ekki hlutverk Þórsara að mæta á völlinn og styðja önnur lið sem skipta þá engu máli.

„Ég vil þakka öllum sem lögðu orð í belg, þetta er þroskandi og uppbyggileg umræða. Í fyrsta lagi er þetta ekki grín. Í öðru lagi viljum við alls ekki vanvirða eða móðga neinn. Það var ekki ætlunin. Við félagaranir mislásum stöðuna. Við upplifum okkar ríg í Kópavogi, með þeim hætti að við myndum frekar styðja Þór gegn HK, svo dæmi sé tekið. Við héldum, að rígurinn hérna á Akureyri væri þess eðlis líka, en við erum að komast að annari niðurstöðu núna.Hvetjum ykkur öll til að mæta, sama hvort liðið þið styðjið,“ sagði stuðningsmaður Breiðabliks eftir svör frá Þórsurum.

Fyrir leikinn eru KA menn í fjórða sæti Pepsi Max deildarinnar með 30 stig. Breiðablik eru í þriðja sæti með 35 stig. Víkingur og Valur sitja á toppi deildarinnar með 36 stig en þau lið hafa spilað einum leik meira en KA og Breiðablik. KA og Breiðablik mættust í Kópavogi í síðustu viku og þá vann Breiðablik 2-0.

Leikurinn í dag hefst klukkan 18:00 á Greifavellinum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó