Markaðsstofa Norðurlands skorar á stjórnvöld að tryggja strax fjármagn til þess að kaupa og setja upp ILS aðflugsbúnað fyrir aðflug úr norðri á Akureyrarflugvelli. Jafnframt að gerð verði áætlun, og hún fjármögnuð, um uppbyggingu á Akureyrarflugvelli til framtíðar svo hann geti þjónað hlutverki sínu sem varaflugvöllur og millilandaflugvöllur Norðurlands. Það felur m.a. í sér stækkun flugstöðvarinnar, stækkun flughlaðsins og að tryggja að flugvöllurinn sé sem best tækjum búinn.
Vöntun á umræddum búnaði stendur núverandi millilandaflugi fyrir þrifum. Ferðaskrifstofan Super Break, sem stendur fyrir 14 flugferðum til Akureyrar frá Bretlandi í vetur og hefur þegar hafið sölu á fleiri ferðum sem hefjast í desember 2018, hefur nú í tvígang þurft frá að hvera vegna þess að þessi búnaður var ekki til staðar. Áform annarra flugrekenda sem hafa sýnt áfangastaðnum áhuga eru alfarið háð því að þessi búnaður verði settur upp. Þetta mál þolir því enga bið.
Yfirlýst stefna stjórnvalda er að auka dreifingu ferðamanna betur um allt land. Lykilatriði til þess að svo megi verða, er að nýta flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum fyrir beint millilandaflug. Þannig mun flæði ferðamanna verða mun jafnara, bæði um landið og yfir árið. Fleiri áfangastaðir á Íslandi auka vöruframboð í ferðaþjónustu á landinu og nýta betur þá innviði sem eru til staðar. Einnig gefa fleiri áfangastaðir dreifðari byggðum landsins aukna möguleika á að taka þátt í uppbyggingu ferðaþjónstu á landinu.
Markaðsstofa Norðurlands hefur í samstarfi við sveitarfélög og ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi unnið að því markvisst frá árinu 2011 að kynna Norðurland sem áfangastað fyrir millilandaflug. Samhliða markaðssetningunni hefur verið lögð áhersla á að flugvöllurinn sé tilbúinn fyrir millilandaflug og að rekstur hans sé tryggður. Ekki hefur gengið eftir að svo sé þrátt fyrir yfirlýstan vilja stjórnvalda þar um, en nú er svo komið að verkefni um millilandaflug eru í hættu vegna skorts á nauðsynlegum aðbúnaði á Akureyrarflugvelli.
Fyrir hönd Markaðsstofu Norðurlands
Arnheiður Jóhannsdóttir
Framkvæmdastjóri
UMMÆLI