NTC

Nemendur vilja fá að leika sér í snjóskafli

Nemendur við Borgarhólsskóla á Húsavík eru alls ekki sáttir við það að snjóruðningi á bílastæði skólans sé í sífellu mokað í burtu. Nemendurnir hafa þá sent Kristjáni Þór Magnússyni, sveitastjóra, formlegt bréf þar sem þeir biðla til hans að mokstrinum verði hætt.

Kristján Þór fagnar því frumkvæði sem nemendurnir sýna en málið er komið til framkvæmdanefndar. Á Facebooksíðu Borgarhólsskóla er birt handskrifað bréf frá nemendum til bæjarstjóra.

Í þessu skemmtilega bréfi segir: „Kæri bæjarstjóri. Getur þú hætt að segja mönnunum að taka skaflinn okkar með gröfum og vörubílum. Af því okkur finnst svo gaman að leika þar. Kveðja nemendur.“

Kristján Þór segist í samtali við Rúv vera mjög ánægður með bréfið en segir þó að tryggja þurfi öryggi nemenda. „Þetta fær bara meðhöndlun í kerfinu hjá okkur eins og önnur erindi. Ég held að það sé hægt að finna mjög ásættanlega leið í þessu. Það sem þarf hins vegar að passa er að öryggi nemenda, sem þarna leika sér, sé tryggt,“ segir Kristján Þór.

Hann fagnar þó frumkvæðinu sem krakkarnir sýna. „Þetta gerir ekkert annað en að auka bjartsýni mína á framgang sveitarfélagsins að menn beri sig eftir björginni og sýni svona flott frumkvæði,“ segir Kristján.

Hjálmar Bogi Hafliðason, deildarstjóri í Borgarhólsskóla, segir að til margra ára hafi snjó verið rutt upp í einu horni bílastæðisins og þar sé mjög vinsælt að leika sér. „Þetta breytist náttúrulega bara í virki, höll og fjall, þar sem börnin hreiðra um sig og renna sér,“ segir Hjálmar. Hann segir gott að nemendur láti sig málefni nærumhverfisins varða. „Við leggjum rækt við lýðræði og borgaravitund og þetta er liður í því,“ segir hann.

 

 

VG

UMMÆLI

Sambíó