Vegagerðin mun auka snjómokstur í Svarfaðardal á árinu. Umhverfisráð Dalvíkurbyggðar fagnar því en furðar sig í hverju aukningin er fólgin og telur að hún muni ekki nýtast öllum.
Þetta kom fram á fundi umhverfisráðsins í vikunni þar sem rætt var um boðaða aukna vetrarþjónustu og hálkuvarnir í Svarfaðardal.
„Það er með hreinum ólíkindum að Vegagerðin skuli leyfa sér að mismuna íbúum dalanna um umferðaröryggi eftir því hvar þeir búa. Það fer skólabíll í báða dalina alla virka daga og einnig sækja íbúar þar vinnu til Dalvíkur,“ segir í fundargerð.
Fram kemur að í báðum dölunum séu ferðaþjónustufyrirtæki sem þurfi á góðri vetrarþjónustu að halda. Í fundargerðinni segir enn fremur:
„Einnig má geta þess að á þeirri leið sem Vegagerðin leggur til að aukin þjónusta verði, eru einungis tvö af tólf mjólkurbúum í dölunum og sækir mjólkurbíllinn mjólk á þriðjudögum, fimmtudögum og laugardögum.
„Umhverfisráð gerir kröfu um að í fyrirhuguðu snjómokstursútboði verði gert ráð fyrir sjö daga þjónustu í Svarfaðardal og Skíðadal og búið verði að moka áður en skólabíllinn kemur kl. 07:30.
Umhverfisráð Dalvíkurbyggðar skorar á þingmenn kjördæmisins, samgönguráðherra og vegamálastjóra að beita sér fyrir ofangreindum tillögum ráðsins.“
UMMÆLI