Amtsbókasafnið á Akureyri birti á dögunum bókaáskorun á samskiptamiðlinum Facebook:
„Jæja rísið úr tungusófunum og slökkvið á Netflix nú er komið að bókaáskorun! 😁 26 bækur á einu ári er það ekki bara fínt nýjársheit? “
Áskorun þessi gengur út að hvetja fólk til að lesa a.m.k. 26 bækur á árinu 2018 sem nýlega er gengið í garð. Gefnar eru upp 26 hugmyndir að ýmsum bókum sem hægt er að lesa. Þar má t.d. nefna þroskasögu, unglingabók, bók sem gerist að sumri, bók sem ögrar o.s.frv. Áskorunina í heild sinni má sjá hér að neðan.
Með áskoruninni vill Amtsbókasafnið efla bókalestur í samfélaginu. Tungusófinn og Netflix vísa í síðasta áraskaup þar sem hið svokallaða bókmenntaeftirlit ræðst inn á íslenskt heimili og athugar hvort það standist kröfur um íslenska menningu. Auðvitað var um grín að ræða en oft er sagt að öllu gríni fylgi alvara.
Hallgrímur Helgason tók við viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins fyrir ritstörf þann 4. janúar og sló á svipaða strengi í ræðu sinni við það tilefni. „Helsta ógnin við íslenska tungu er tungusófinn,“ sagði Hallgrímur.
Amtsbókasafnið vill að sjálfsögðu ekki ganga jafn hart fram og bókmenntaeftirlitið í Skaupinu en vill þó gjarnan sjá fólk lesa svolítið meira á árinu 2018. Viðbrögð við færslunni, sem birt var fyrir helgi, fóru fram úr björtustu vonum og hafa hátt í 300 manns deilt henni.
Starfsfólk Amtsbókasafnsins er afar hrært yfir þessum stórkostlegu viðbrögðum og fljótt varð ljóst að þessum mikla áhuga þurfti að fylgja eftir. Því var stofnaður hópur á Facebook sem heitir einfaldlega #26bækur Þangað eru allir þátttakendur áskoruninnar velkomnir, sem og allir þeir sem eru áhugasamir eða ætla jafnvel aðeins að lesa eina bók af listanum. Aðalatriðið er að lesa og þá helst aðeins meira en vanalega.
Í tilkynningu frá bókasafninu segir: „Amtsbókasafnið hvetur alla til að líta á áskorunina. Kannski höfða ekki öll atriðin á listanum til fólks en þá er um að gera að gera hann að sínum, skipta út og bæta öðru við í staðinn. Nóg er til af listum á netinu ef fólki skortir hugmyndir. En svo er oft gott að fara út fyrir þægindarammann og lesa það sem viðkomandi hefði vanalega ekki valið. Kannski reynist „leiðinlega“ bókin vera einmitt sú skemmtilega. Fólk má endilega vera duglegt að nota myllumerkið #26bækur til að vekja athygli á áskoruninni, lestri og bókum. Gerum bókalestur sýnilegri í samfélaginu!“
Sjá einnig:
UMMÆLI