Norðlenska á Akureyri hefur sagt upp leigusamningi sínum og hyggst flytja höfuðstöðvar sínar úr núverandi húsnæði á Akureyri en sláturhús og kjötvinnslustöð hefur verið starfrækt á sama stað við Grímseyjargötu allar götur frá 1928.
Auk höfuðstöðvanna á Akureyri er fyrirtækið einnig með sláturhús á Höfn og á Húsavík. Viðræður hafa verið í gangi milli fyrirtækisins og Hörgársveitar annars vegar og Akureyrar hins vegar, um nýja lóð fyrir fyrirtækið.
Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska, segir líklegast að fyrirtækið byggi sér nýtt húsnæði undir starfsemi sína. „Við höfum sagt upp leigusamningnum og munum að óbreyttu flytja út að tveimur árum liðnum“ segir Ágúst í viðtali við Vísi.is. „Þú ferð ekki út á fasteignasölu og nærð þar í 5.000 fermetra iðnaðarhúsnæði. Við þurfum að lágmarki 15.000 fermetra lóð fyrir starfsemi okkar og höfum verið í viðræðum við tvö sveitarfélög og fengið vilyrði hjá þeim báðum um lóð fyrir starfsemina.“
Núverandi húsnæði Norðlenska er í eigu Miðpunkts ehf. Miðpunktur er í eigu sömu aðila og eiga og reka Kjarnafæði, einn af keppinautum Norðlenska á markaði.
UMMÆLI