NTC

Sko skeiðarnar

Sko skeiðarnar

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með umræðunni í samfélaginu síðustu daga. Nú hafa nefnilega verið sett lög til að draga úr plastmengun. Þau banna meðal annars einnota plaströr, plastpoka og plastskeiðar. Fólki til mis mikillar ánægju. 

Ég skal alveg vera sammála mörgum og viðurkenna að skyr með pappaskeið er ekki það mest spennandi. Pappinn mýkist við bleytuna og rakann frá skyrinu ásamt því að pappabragðið smitast í matinn. Og það er auðvelt að vera pirraður þegar lítilli plastskeið er skipt út fyrir lélega pappaskeið á meðan sjálfar umbúðirnar eru úr æpandi plasti. Sömu sögu er að segja af papparörunum. En stöldrum aðeins við. 

Loftslagsbreytingar og hamfarahlýnun hafa líklega ekki farið framhjá neinum. Vissulega er misjafnt hvernig fólk túlkar þessa þróun en það er hægt að sammælast um það að við sem mannkyn höfum raskað jafnvægi náttúrunnar með lífstíl okkar. Við viljum flest lifa í sjálfbærni og skila jörðinni í góðu ástandi til næstu afkomenda. Það þýðir að við þurfum að endurskoða hvernig við lifum okkar lífi. Það þýðir að við þurfum að gera einhverjar breytingar og breytingar taka alltaf á. 

Síðustu ár hefur mikið verið lagt áherslu á hvað einstaklingurinn getur gert. Draga úr keyrslu. Borða meira úr jurtaríkinu og minna úr dýraríkinu. Velja staðbundnar og lífrænar vörur. Forðast einnota hluti. Endurvinna eftir bestu getu. Og margir hafa náð að tileinka sér margt af þessu. En það þarf meira til. Stóru fyrirtækin skipta hérna miklu máli. Þau hafa svo mikið vald enda geta þau svolítið stýrt okkur einstaklingunum. Þannig að þegar framleiðendur og fyrirtæki loksins taka einhver skref í átt að grænna hagkerfi, þá er okkar hlutverk að fagna því. Við erum saman í þessari loftslagsbaráttu og skiptir máli að við sýnum samstöðu. 

Ég mun líklega ekki notfæra mér þessa umtöluðu pappaskeið nema í ýtrustu neyð. Enda ætti markmiðið okkar líka að vera að draga úr noktun á öllu einnota, hvort sem það er plast eða ekki. Mér finnst alveg sjálfsagt að skipuleggja mig og passa að ég sé með mína eigin skeið til taks. Það er auðveldlega hægt að venja sig á það. Alveg eins og flestir hafa vanist því að koma með margnota innkaupapoka í matvöruverslanirnar. Tökum því þessum breytingum með bros á vör og vonandi er stutt í fleiri græn skref hjá framleiðendum og fyrirtækjum!

*Positive anything is better than negative nothing*

Sambíó

UMMÆLI