Bæjarstjórn Akureyrarbæjar lýsir yfir miklum vonbrigðum með fjármagn sem ætlað er til heilbrigðismála á Norðurland

Sjúkrahúsið á Akureyri

Sjúkrahúsið á Akureyri

Á fundi sínum í gær samþykkti bæjarstjórn Akureyrar samhljóða ályktun og lýsti yfir miklum vonbrigðum með það fjármagn sem ætlar er til heilbrigðismála á Norðurlandi í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi.

Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er sérstök áhersla lögð á heilbrigðismál og að allir landsmenn óháð búsetu eigi að njóta góðrar þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Í ályktuninni segir að það skjóti því skökku við að Sjúkrahúsið á Akureyri skuli aðeins fá 47 milljónir í raunaukningu til reksturs eða um 0,6%. Það liggi fyrir að aukin þjónustuþörf hafi verið á bilinu 2-4% undanfarin ár.

Í ályktuninni segir:

„Þetta þýðir að það vantar allt að 100 milljónum króna í almennan rekstur svo SAk geti veitt íbúum á þjónustusvæði sínu nauðsynlega þjónustu. Í þessu sambandi vill bæjarstjórn benda á að á liðnum árum hafa stjórnendur og starfsfólk SAk sýnt mikið aðhald og ráðdeild í rekstri og því er full ástæða til að taka fullt mark á ábendingum þeirra sem fram hafa komið síðustu daga. Þá leggur bæjarstjórn ríka áherslu á að samhliða uppbyggingu á húsnæði Landspítalans verði hafist handa við byggingu nýrrar legudeildarálmu við SAk.“ 

Það vekur einnig furður bæjarstjórnar að í frumvarpi til fjárlaga skuli vera komin fram hagræðingarkrafa á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á sama tíma og það liggur fyrir að þjónustuþörfin hefur aukist verulega og framlög eru aukin til heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu.

Bæjarstjórn hvetur þingmenn kjördæmisins og ráðherra fjármála og heilbrigðismála til þess að standa fyrir breytingum á fjárlagafrumvarpinu svo snúa megi þessari þróun við sem er í hrópandi mótsögn við stefnu ríkisstjórnarinnar sem birtist í nýsamþykktum sáttmála hennar.

VG

UMMÆLI