NTC

Í skugga valdsins

Eva Hrund Einarsdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri skrifar:

Það er sláandi að lesa fyrirsagnir frétta núna dag eftir dag. – “Nauðgunartilraun í lok vaktar – Ég veit þú fílar að vera flengd – Ég heyrði ekki spurninguna því ég var að horfa á brjóstin á þér“.

Konur hafa fengið nóg og er ótrúlegt að upplifa þá samstöðu sem hefur myndast á meðal kvenna í #metoo byltingunni. Það er erfitt að lesa og hlusta á margar af þeim sögum sem hafa komið fram og greinilegt að þessi bylting er að rífa upp gömul sár hjá mörgum og ákveðið uppgjör hjá öðrum. Konur í hverri stéttinni á fætur annarri standa nú upp og mótmæla því starfsumhverfi og þeirri menningu sem hefur verið við líði.

Stjórnmálaumhverfi í dag er enn afar karllægt. Þó svo að að við konur séum í meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar í dag liggja völdin og peningarnir í þjóðfélaginu klárlega almennt hjá karlpeningnum. Oftast eru oddvitar karlmenn, hér í bæjarstjórn eru tvær konur oddvitar af sex flokkum. Bæjarstjórinn er karlmaður, forseti bæjarstjórnar er karlmaður, formaður bæjarráðs er karlmaður, formenn þeirra stjórna sem eru hæst launaðastar hjá Akureyrarbæ eru einnig karlmenn. Í upphafi kjörtímabils voru karlkyns oddvitar í öllum meirihlutaflokkunum og skein það í gegn til að byrja með. Það hefur breyst og erum við nú komin með öfluga konu þar á meðal og tel ég það skipta miklu máli.

Pólitískir fulltrúar virðast með störfum sínum verða almannaeign og upplifun mín hefur verið sú að sumir telji að það megi koma fram við þá á allt annan hátt en almennt telst eðlilegt, þ.e. að koma megi fram við þá með vanvirðingu, hroka, yfirgangi og þannig talsmáta að hann er ekki við hæfi barna. Einhvernveginn virðist vera sem svo að konur verði verr fyrir þessari framkomu heldur en karlar. Það hefur verið gengið svo hart að þeim að þær hafa sumar hverjar verið allt að því verið jarðaðar, bæði af almenningi og samstarfsmönnum.

Á sínum tíma þegar ég ákvað að fara í stjórnmál þurfti ég að hugsa mig verulega um því mig hryllti við því sem hafði viðgengist. Að horfa upp á vinkonu mína Þorgerði Katrínu og börn hennar verða fyrir því aðkasti sem hún varð fyrir var sárt – eins mína góðvinkonu Sigrúnu Björk fyrrum bæjarstjóra Akureyrarbæjar. Ég sagði við þær sem og Ólöfu Nordal heitna þegar þær gengu hart að mér að bjóða mig fram að ég væri ekki með það sterkt bak að þola það sem þær stöllur lentu í, ég tala nú ekki um hana Steinunni Valdísi og hennar fjölskyldu. Ég bókstaflega grét þegar ég las pistil eftir dóttur hennar Steinunnar Valdísar þar sem hún lýsir upplifun sinni þegar hún var 10 ára barn og horfði upp á heiftina, ofbeldið og hótanirnar sem móðir hennar varð fyrir. Að 10 ára barn upplifi það að lesa fréttir af því að karlmenn sé hvattir til þess að nauðga móður hennar er svo ógeðfellt að orð fá því ekki lýst.

Hér um daginn gerðist þetta okkur nær, kvenbæjarfulltrúi í okkar röðum varð fyrir hótunum og aðkasti þannig að hún sá sér ekki annað fært en að leita til lögreglu. Hún var það óttaslegin að hún þorði ekki að vera ein heima með börnum sínum. Svo sannarlega hefði ég upplifað það sama í hennar sporum en þetta er ólíðandi. Ég var ánægð að sjá samstöðu allra bæjarfulltrúa í þessu máli og að bæjarráð bókaði þess efnis að svona háttalag yrði ekki liðið.

Við stjórnmálakonur hér norðan heiða, núverandi og fyrrverandi hittumst um daginn og fórum saman yfir reynslusögur og hvað okkur finnst megi betur fara í pólitísku umhverfi.

Dæmi sem voru nefnd voru:

kynferðisleg áreitni
niðurlægjandi athugasemdir
andlegt ofbeldi
hugmyndir teknar og eignaðar öðrum
þöggun
misnotkun valds
hunsun, svo áfram mætti telja.

Sögurnar voru misalvarlegar en samt allar þannig að sú framkoma á ekki að líðast. Ég get sagt ykkur sögu af sjálfri mér sem er ekki alvarlegt dæmi en sínir óþarfa niðurlægjandi framkomu. Ég var á pólitískum fundi með nokkrum aðilum og þar á meðal eldri karlmanni sem þekkti mig ekkert og hafði ekki fundað með mér áður. Þegar ég mætti á fundinn og settist við hlið hans þá gáfu fyrstu orð hans í skyn að ég væri ung kona og hefði í raun ekki mikið þarna að gera. Ég varð kjaftstopp sem gerist nú ekki oft eins og þið flest vitið, en var svo fegin þegar bæjarfulltrúi Guðmundur Baldvin steig inn í umræðuna og sagði við viðkomandi: Þú þekkir greinilega ekki Evu Hrund. Þú átt eftir að komast að öðru, því hún liggur ekki á sínum skoðunum og er ekki rög við að taka á málum.

Í lok fundar sá viðkomandi greinilega að sér og vatt sé upp að mér og sagði mig vera kjarnakonu. Ég hef ekki rætt þetta atvik við Guðmund Baldvin né viðkomandi aðila en hef lengi langað til þess að þakka Guðmundi Baldvini fyrir að bregðast við og geri það hér með. Takk Guðmundur Baldvin þú sýndir fordæmi sem margir mega tileinka sér. Auðvitað er þetta ekki alvarlegt atvik en þetta er samt hegðun sem mér finnst óviðeigandi og við eigum ekki að líða. Hugsanlega átti þetta að vera fyndið en mín upplifun var ekki á þá leið.

Andlegt ofbeldi er eitthvað sem hefur líðst í þessum sal á lokuðum fundum, ekki bara hjá núverandi fulltrúum heldur að mér heyrist í gegnum tíðina. Við verðum að taka umræðuna og finna leiðir í sameiningu til þess að sporna við þessu. Eins það að hér sé öskrað á fólk og barið í borð er ekki hegðun sem við konurnar viljum líða.

Með tilliti til þessar þátta sem við konurnar ræddum væri vert að endurskoða siðareglur pólitískra fulltrúa. Eins væri spurning hvort við ættum að endurskoða nýliðafræðsluna hjá okkur. Hvað suma af þessum þáttum varðar þá reynir stundum verulega á fundarstjóra þess vegna væri einnig spurning hvort að bjóða ætti upp á námskeið í upphafi kjörtímabils í fundarstjórnun fyrir kjörna fulltrúa í bæjarstjórn og nefndum. Það námskeið ætti líka að nýtast okkur við að gera okkar fundi markvissari og leiða til þess að allir fundarmenn nái að njóta sín. En ég hef nýlega lent í samtali við konu í nefnd hér hjá okkur sem sagði mér að hún og fleiri konur væru að missa áhugann á veru sinni þar, þar sem þær væru einmitt að upplifa eitthvað af ofantöldum atriðum frá karlmönnum.

Á sameiginlegum fundi okkar kvennanna um daginn ræddum við einnig um að það vanti farveg fyrir kjörna fulltrúa til þess að leita til þegar eitthvað kemur upp. Það vöknuðu upp spurningar eins og: Gilda sömu verklagsregur fyrir kjörna fulltrúa og starfsmenn sveitarfélaga þegar upp kemur áreitni, ofbeldi eða einelti ? Er rétt að kjörnir fulltrúar leiti til starfsmannastjóra bæjarins og fari með sín mál inn í kerfið þar eða væri réttara að leita til forseta bæjarstjórnar eða Sambandsins? Eins hef ég sjálf verið að velta fyrir mér síðustu daga hvort rétt væri að kjörnir fulltrúar kysu sér trúnaðarmann á hverju kjörtímabili. Ég sé fyrir mér að það yrði jafnvel almennt tekið upp hjá sveitarstjórnum og að þessir trúnaðarmenn hefðu bakland hjá Sambandinu og fengju þar viðeigandi þjálfun.

Bæjarráð fól fyrir stuttu velferðarráði að endurskoða aðgerðaráætlun Akureyrarbæjar gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gegn börnum. Það er bráðnauðsynlegt en við konurnar í bæjarstjórn viljum ganga skrefinu lengra og leggjum því fram eftirfarandi bókun til samþykktar hér í bæjarstjórn í dag. Hún hljóðar svo:

Bæjarstjórn felur bæjarráði að skipa starfshóp sem útbýr viðbragðsáætlun vegna ofbeldis, áreitis og/eða kynferðislegrar áreitni sem kjörnir fulltrúar kunna að verða fyrir í störfum sínum fyrir bæinn. Skal þessi áætlun vera unnin í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og stjórnmálaflokka á Akureyri. Eins skal þessi starfshópur yfirfara siðareglur og nýliðafræðslu kjörinna fulltrúa.

Alvarlegasti hlutinn í þessu er samt að í lok þessa dags hafa að öllum líkindum 5 konur verið beittar alvarlegu ofbeldi hér á landi. Það eru fimm of margar. En ég er sannfærð um að #metoo byltingin sé farin að hafa áhrif og ég ætla að trúa því að hún muni hafa áhrif til framtíðar. Því þessi umræða auðveldar okkur öllum að grípa inn í þegar aðilar sína óæskilega hegðun. Eins veit ég til þess að konur eru farnar að fá afsökunarbeiðni frá karlmönnum sem sjá eftir gjörðum sínum.

Ég held að við séum komin að þeim tímapunkti að hver og einn einstaklingur sama af hvaða kyni viðkomandi er þarf að hugleiða, hvernig hef ég tekið þátt? Hef ég verið gerandi á einhvern hátt? Hef ég verið vitni af óviðeigandi hátterni, áreitni, andlegu ofbeldi eða jafnvel kynferðislegu ofbeldi án þess að bregðast við? Og við þurfum hvert og eitt okkar að hugsa: hverju ætla ég að breyta hjá mér til þess að breyta þessu umhverfi til hins betra.

Ég vil að lokum þakka þeim konum sem riðu á vaðið með þessa byltingu – eins vil ég þakka öllum þeim konum sem hafa komið fram með sínar sögur. Þessar konur eru hetjur í mínum huga og það var svo sannarlega ánægjuefni að þær væru kosnar persónur ársins hjá tímaritinu Time.

Ég ætla að enda á brýningu til bæjarfulltrúa og þeirra sem eru að horfa á umræðuna með þeim orðum sem ég brýni reglulega fyrir dætrum mínum: Komið fram við aðra eins og þið viljið að aðrir komi fram við ykkur – því ef allir fara eftir þeim er ég sannfærð um að til verður betra samfélag.

Greinin er upphaflega skrifuð sem ræða í bæjarstjórn Akureyrarbæjar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó