NTC

Hundalíf og hamingja

Inga Dagný Eydal skrifar

Ég fór að velta því fyrir mér hvort að pistlarnir mínir hingað til væru of dapurlegir. Ég veit að ég sagðist vera að skrifa þá fyrst og fremst í meðferðarskyni fyrir sjálfa mig en það er mér líka mikilvægt að þar sé ég þá að fjalla líka um góðu og einföldu hlutina í tilverunni. Þegar ég segi einföldu þá meina ég hluti sem ekki eiga sér rætur í fortíðinni eða þurfa neinna skýringa við,- þeir einfaldlega eru.  Ástin sem ég ber til minna nánustu, vindurinn sem blæs við gluggann minn, útsýnið til fjallanna, kyrrðin, tónlistin….og Alex.

IMG_7597

Alex sefur vært við hliðina á mér núna. Honum þykir ákaflega vænt um morgunlúrinn á meðan ég vinn í tölvunni eða les, að ég tali nú ekki um þegar regnið dynur á þakinu eins og einmitt núna. Alex, er stundum kallaður mús, skott, snúlli, asni, strákur og ýmislegt annað en hann er hundur.

Hann kom á heimilið átta vikna gamall og var fljótur að brjóta á bak aftur alla andstöðu og allar umgengnisreglur sem við höfðum sett okkur. Það var ómögulegt að láta þetta kríli skæla aleinan fyrstu nóttina, án mömmu sinnar og systkina- síðan hefur hann átt fast pláss í hjónarúminu. Við ætluðum heldur alls ekki að vera svo hallærisleg að kalla okkur mamma og pabbi en þið megið geta þrisvar hvort það gekk upp. Þessi pínulitli einstaklingur hafði sterkan vilja, það hefur hann enn og hann bræddi okkur algjörlega.  Hann er skuldbinding, vesen á köflum og stundum fjötur um fót en hann á okkur skuldlaust.

IMG_6687
Alex gerir jógaæfingar með mömmu

En hvað er það þá sem gerir það að verkum að lífið með Alex er sko ekkert hundalíf? Jú Alex er glaðasti hundur í heimi og kennir mér endalaust að vera hér og núna. Hann sér til þess að ég fer á fætur á morgnana, (þótt okkur finnist ekki slæmt að geta lagst upp í aftur). Hann sér til þess að ég fer alltaf út í gönguferð, alla daga í öllum veðrum. Loðboltinn er alltaf óendanlega glaður yfir okkar samveru, hvort sem hann lúrir hjá mér eða hann er að skopppa úti og skoða náttúruna, bara ef hann veit að ég er nálægt er allt í lagi. Hann hefur ekki stórt hjarta og þarf á því að halda að ég fullvissi hann um að hlutirnir séu í lagi en hann vill líka vernda okkur, húsið og lóðina og lætur okkur alltaf vita ef eitthvað er ekki eins og það á að vera. Hann sér til þess að ég leiki mér alla daga, frisbí diskar eru í uppáhaldi núna og svo fer að líða að snjóboltakasti og ýmsu fleiru skemmtilegu. Alex er blíður hundur, elskar börn og leikur við alla hunda sem vilja leika við hann.

Hafandi nýlega ferðast um Bretland þar sem hundar þykja sjálfsagðir hluti lífsins og eru boðnir velkomnir svo til hvar sem er þá sé ég líka hversu fallegt hundalíf getur verið.   Það yljaði um hjartað að sjá að fólk var ekki sett í einhvern skammarkrók fyrir það að eiga hund eins og reyndin er á Íslandi.

Ég skil núna af hverju fólk lætur ekki hundana sína frá sér, þessar einlægu, elskandi og tryggu skepnur. Ég veit að líkur eru til þess að hann Alex fari frá mér einn daginn og það er dagur sem ég vil ekki hugsa neitt sérstaklega um. Og voffinn okkar kennir mér jú   að lífið er núna og bara núna. Þannig rúllar Alex og þannig ætla ég líka að reyna að rúlla. img_6201.jpg

Eina leiðin til að vera besta útgáfan af sjálfum sér er að gangast við sjálfum sér.

Inga Dagný Eydal er Norðlendingur á besta aldri sem starfað hefur m.a. við hjúkrun, kennslu og tónlist. Hún býr í Eyjafjarðarsveit ásamt eiginmanni og hundi og sinnir eigin endurhæfingu og sköpun s.s. í ljósmyndun og skrifum, matargerð og listmálun. Veltir gjarnan vöngum yfir tilverunni, mannlífinu og vitleysunni í sjálfri sér og skrifar niður í pistla. Pistillinn birtist upphaflega á  raedaogrit.wordpress.com/

Sjá einnig:

Örfá barnaleg kvíðaráð

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó