Ísbjörn réðst á danskan kvikmyndagerðamann á Grænlandi. Hann var í kjölfarið fluttur með sjúkraflugi til Akureyrar þar sem farið var með hann á bráðamóttöku sjúkrahússins á Akureyri. Frá þessu er greint á Facebook-síðu Arctic Command.
Maðurinn dvaldi í rannsóknarkofa á vegum Háskólans í Árósum á austurstönd Grænlands ásamt tveimur öðrum kvikmyndagerðamönnum. Aðfaranótt mánudags fengu mennirnir heldur óskemmtilega heimsókn. Einn þeirra vaknaði við ísbjörn sem hafði brotist inn um glugga í herbergi hans. Ísbjörninn réðst á manninn og beit í vinstri hönd hans en félagar hans vöknuðu við sársaukaópin. Þeim tókst þá að reka ísbjörninn á brott og bjarga félaga sínum með blysbyssu.
Fluttur með sjúkraflugi til Akureyrar
Kofinn sem mennirnir dvöldu í er í um 400 metra fjarlægð frá dönsku herstöðinni Daneborg. Mennirnir óskuðu eftir aðstoð Síríus-sveitarinnar, sem tilheyrir danska sjóhernum. Liðsmenn sveitarinnar fluttu þá hinn særða á herstöðina og þar gerðu hermenn að sárum mannsins með lækni í Danmörku sér til aðstoðar. Það þótti ekki duga til og var hann því fluttur með sjúkraflugi til Akureyrar. Þar var gert að sárum hans en hann sneri síðan aftur til Grænlands.
Í samtali við fréttastofu Vísis segir Sigurður Einar Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á sjúkrahúsinu á Akureyri, að ísbjarnarbit séu ekki ofarlega á listanum yfir algenga áverka. „En ef hlutirnir gerast á austurströnd Grænlands og sérstaklega á norðausturströndinni þá erum við nærtækasta bráðamóttaka og sjúkrahús fyrir þá sem lenda í svona áverkum,“ segir Sigurður.
Vandræðabjörn
Strax næstu nótt urðu kvikmyndagerðamennirnir varir við ferðir sama ísbjörns. Þeir höfðu þá samband við Síríus og greindu frá því að björninn hefði snúið aftur. Hermenn voru sendir á staðinn og fældu björninn í burtu. Ísbjörninn var þó ekki lengi að snúa aftur og skemmdi rúðu á kofanum en mönnunum tókst að hrekja hann á brott.
Að sögn Arctic Command hefur björninn fimm sinnum áður verið til vandræða. Hann hefur nú verið flokkaður af grænlenskum stjórnvöldum sem „vandræðabjörn“ og er fólki nú heimilt að skjóta björninn ef hann nálgast svæðið aftur.
UMMÆLI